Mikill áhugi fyrir 60+ félagsmiðstöð á Hvammstanga í sumar

Kynningarfundurinn var vel sóttur. Mynd: Húnaþings vestra.
Kynningarfundurinn var vel sóttur. Mynd: Húnaþings vestra.

Félagsmiðstöð 60+ verður starfrækt á Hvammstanga í sumar. Opið verður í dreifnámsmiðstöðinni á neðri hæð Félagsheimilisins á Hvammstanga á miðvikudögum í júlí og ágúst frá klukkan 14-16.

Síðastliðinn fimmtudag var opið hús í Félagsmiðstöðinni þar sem boðið var upp á vöfflukaffi og drög að dagskrá kynnt. Á vef Húnaþings vestra kemur fram að mikill áhugi sé á verkefninu og góðar hugmyndir að námskeiðum eða félagsstarfi hafi komið fram. Svo var hlustað á harmonikkuleik og sungið saman. „Þar verður hægt að fá sér kaffi, spjalla saman eða spila, fara í gönguferð eða taka þátt í námskeiðum. Einnig verður Henrike Wappler félagsráðgjafi á staðnum ef óskað er eftir ráðgjöf“, segir í frétt Húnaþings.

Einnig verður boðið upp á dagskrá á öðrum dögum yfir þetta tímabil eins og í íþróttahúsinu, á púttvelli eða í Nestúni og verður það þá auglýst sérstaklega. Alltaf verður þó heitt á könnunni á miðvikudögum.  /SHV

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir