Mörg verkefni tengd ferðaþjónustunni að fara af stað

Meðal nýrra verkefna eru landslagsmyndbönd Helga Sæmundar Guðmundssonar sem hafa fengið nafnið Norðvestur. Mynd: Facebooksíðan Norðvestur.
Meðal nýrra verkefna eru landslagsmyndbönd Helga Sæmundar Guðmundssonar sem hafa fengið nafnið Norðvestur. Mynd: Facebooksíðan Norðvestur.

Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra kölluðu í vor eftir hugmyndum að átaksverkefnum vegna áhrifa af COVID-19 faraldrinum og var í framhaldi af því valið úr þeim fjölmörgu hugmyndum sem bárust. Um helmingi þeirra fjármuna sem veitt var af sóknaráætlun til verkefnisins var veitt  til verkefna til eflingar ferðaþjónustu á svæðinu.

Í frétt á vef SSNV segir frá því að þessa dagana sé verið að hefjast handa við átak í hnitsetningu gönguleiða á Norðurlandi vestra en þar mun af nógu að taka. Hluti af sveitarfélögunum á svæðinu hefur tekið fyrstu skrefin með nokkrar gönguleiðanna en nú stendur til að bæta hressilega í þannig að sem flestar af þessum gönguleiðum verði í framtíðinni aðgengilegar í tölvum og snjalltækjum. Sumarstarfskraftar sem ráðnir voru af SSNV og Akrahreppi í átaki Vinnumálastofnunar munu sjá um verklegan hluta verkefnisins. Gönguhópar eða einstaklingar sem hafa áhuga á að bjóða fram krafta sína og leggja verkefninu lið eru hvattir til að hafa samband.

Nýlega fóru í loftið á samfélagsmiðlum fyrstu landslagsmyndbönd Helga Sæmundar Guðmundssonar með frumsaminni tónlist úr smiðju hans. Myndböndin hafa fengið heitið Norðvestur og mun verkefnið standa yfir í allt sumar og myndefnið að því loknu vera tiltækt í framtíðarnotkun fyrir kynningarefni svæðisins.

Svipaða sögu má segja af efni sem N4-sjónvarpsstöðin er að taka upp og verður á næstunni notað í þáttunum Uppskrift að góðum degi á Norðurlandi vestra. Fyrsti þátturinn fór í loftið á dögunum og þrír munu fylgja í kjölfarið.

Þá er einnig í undirbúningi verkefni, sem miðar að hönnun og uppsetningu skilta, m.a. á stöðum sem tengjast þekktum persónum. Hugmyndin er að verkefnið verði hluti af heildrænni nálgun á merkingum og/eða uppsetningu á skiltum á ferðamannastöðum, ásamt því að vera samtvinnað öðru upplýsingaefni þeim tengdum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir