Munum að hlýða Víði – verum heima um helgina!

Munum eftir að vera kurteis við starfsfólk verslana. Þolinmæðin er gulls ígildi á þessum tímum. MYNDIR: ÓAB
Munum eftir að vera kurteis við starfsfólk verslana. Þolinmæðin er gulls ígildi á þessum tímum. MYNDIR: ÓAB

Góð vísa er víst aldrei of oft kveðin og það hefur sjaldan átt betur við en þessar vikurnar. Landsmenn eru minntir á að bros er betra en knús, þvo okkur um hendurnar, að spritta (útvortis) og virða sóttkví – svo eitthvað sé nefnt. Nú er síðasti virki dagur fyrir páskafríið þar sem allir ætla að vera heima. Það er því nokkuð ljóst að það verður einhver hasar í verslunum í dag þar sem fylla þarf búr, kistur og skápa af hinum ýmsu nauðsynjum.

Blaðamaður Feykis kíkti í Skagfirðingabúð á Sauðárkróki og þar er einnig útibú Lyfju. Löng biðröð hlykkjaðist inn eftir Skaffó frá afgreiðslu Lyfju en nú er fólki ekki hleypt þar inn heldur verður hver og einn að vera með sitt á hreinu í hurðaropinu. Ekki var annað að sjá en að viðskiptavinir væru þolinmóðir þrátt fyrir að halarófan þokaðist hægt áfram. Ýmsir tóku símana sína til kostanna í röðinni.

Það hefur sömuleiðis ýmislegt breyst í Skaffó. Þar, líkt og í röðinni í Lyfju, er fólki uppálagt að virða 2m bil milli fólks. Á vissum stöðum í búðinni er rauð lína sem skiptir göngunum, við kassana eru merkingar sem sýna hvar bilið er rétt og búið er að setja upp plastskilrúm þannig að engin hætta sé á að smit berist milli kúnna og kassafólks. Lítil eða engin þjónusta er í sérdeildum Skagfirðingabúðar. Nánast undantekningarlaust má sjá fólk spritta hendur og skella sér í bláu hanskana áður en innkaup hefjast. 

Já, þessa dagana er veröldin víðast hvar öðruvísi en við eigum að venjast. Í Hlíðarkaupi á Sauðárkróki er til að mynda einstefna um búðina sem fólk er hvatt til að virða eins og framast er unnt. Þeir allra flinkustu eru farnir að skipuleggja innkaupaferðina til að vera ekki að þvælast fram og aftur um búðirnar. Á sjoppunum þurfa kúnnarnir að taka á honum stóra sínum og skanna gosið og nammið sjálfir og svo mætti lengi telja.

Fólk er hvatt til að ferðast innanhúss um páskana. Sýnum ábyrgð, verum skynsöm og hlýðum Víði!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir