Öll él birtir upp um síðir - Áskorandinn Guðrún Ó. Steinbjörnsdóttir Vatnsnesi

Þrýstingurinn í loftinu er veðrið inn í mér.
Þó ég lækki um eitt millibar, get ég ekkert sagt á ekkert svar.
Stormurinn á undan logninu er biðin eftir þér.
Nú spáir roki og spáir kvíða, áframhaldandi kuldum víða.
Hvenær get ég hætt að skríða og gengið uppréttur.

Þó ég biðji um nýja veðurspá er ekkert víst að úr henni rætist.
Er áhugasamur um eigin gróður en hef aldrei verið veturfróður.
Lægðirnar sem leggjast á mig koma í veg fyrir að ég kætist.
Þegar dagurinn verður aldrei bjartur og hugurinn orðinn bikarsvartur.
Eins og óbotnaður fyrripartur, órímaður

Þessi söngtexti úr smiðju Björns Jörundar á líklega aldrei eins vel við og eftir þennan þunga vetur. Núna þegar marsmánuður er vel á veg kominn er því allt í lagi að fara leyfa sér að dreyma um vorið. Það hefur verið mikið álag á þjóðfélagsþegnum litlu eyjunnar okkar í nokkra mánuði en við megum ekki gleyma að öll él birtir upp um síðir. Ég ráðlegg fólki að nota tímann fram að því að hlúa að sjálfum sér og fjölskyldu. Hættum að eltast við hluti sem skipta ekki máli, stöldrum við, öndum að okkur ísköldum norðannæðingnum og leyfum okkur að vera bjartsýn. Við skulum ekki láta hrakfallaspár af veðri og veiru taka frá okkur allt það sem lætur okkur líða vel. Stundum er þetta bara spurning um að þrauka. Megi vorið og sumarið færa ykkur öllum gleði og góðar stundir til að hlaða rafhlöðurnar fram að næsta stríði.

Já og á meðan ég man, við viljum malbik á Vatnsnesveginn!
Ég skora á Auði Þórhallsdóttur að koma með pistil.

Áður birst í 11. tbl. Feykis 2020

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir