Sá er fuglinn verstur er í sjálfs sín hreiður skítur - Áskorandapistill Birta Þórhallsdóttir Húnaþingi vestra

Við öll sem sinnum listsköpun þekkjum það að vera andlaus, þegar sköpunarkrafturinn kraumar innra með okkur en kemst einhverra hluta vegna ekki upp á yfirborðið. Í ritlist er þetta oft einnig nefnt ritstífla. Margt getur haft áhrif en yfirleitt er ástæðan sú að maður er að vinna fullan vinnudag og sinnir listsköpun í hjáverkum og er þar af leiðandi oft nokkuð þreyttur þegar maður sest við vinnuborðið í lok dags.

Hin ástæðan er gjarnan sú að maður leiðir hugann of mikið að lokaútkomunni og leyfir sér ekki að vinna í óheftu flæði og tilraunastarfsemi. Ég hef reynt að venja mig af hinu síðarnefnda með allskyns aðferðum, aðallega með því að reyna að skrifa eitthvað örlítið á hverjum degi, án þess að ritskoða, skamma mig og líta á skrifin sem endanlega útkomu eða eitthvað sem ætti að vera birtingarhæft heldur leyfa textanum að vera skissur. Við erum nefnilega sjálf oft mjög dómhörð á eigin verk og ég held að andleysið komi ekki síður til af því að við rökkum sjálf okkur niður í höfðinu – en ekki er það sérlega uppörvandi.

            Einhvern tímann var ég andlaus og ákvað að líta í gömul dagblöð og rakst þá á auglýsingu sem ég ákvað að nota sem innblástur eða stökkpall eins og það er einnig stundum nefnt. Textann, sem er núna orðinn dálítið gamall, valdi ég úr skissubókinni til birtingar vegna tengingarinnar við fuglana, sem birtast hver á fætur öðrum þessa dagana og heiðra okkur með nærveru sinni og hljóðum. Að lokum vil ég hvetja aðrar skapandi manneskjur til þess að gera tilraunir, leyfa sér að skapa og vera án þess að hugsa um útkomuna.

Hrafnar
Undirritaður borgar 50 aura fyrir hvern skotinn hrafn til 1. maí í vor. Borgunin greiðist við afhendingu nefjanna (efri skoltsins). 

Heyrt hef ég að margir fuglar haldi tryggð við maka sinn ævilangt, til að mynda álftir, eins og allir vita en þar að auki hrafnar, æðarfuglar (sérstaklega kollan), krían (sem verður tryggari með árunum) og margir sjófuglar svo sem lundinn, teistan og fýllinn. Tjaldurinn stofnar einnig til langtíma hjúskapar. Og fálkinn, sem sumum þykir vargur fyrir að leggja sér rjúpuna systur sína sér til munns, hann er tryggur og stofnar einungis til nýs ástarsambands falli maki hans frá. Eins eru spóinn og sandlóan einkvænisfuglar og meira að segja konungur íslensku fuglanna, haförninn.

            En hvað um það. Í fyrravetur var hrafnapar alltaf að slæpast í kringum húsið og ég fór að gefa þeim alla matarafganga sem féllu til á heimilinu. Þau voru fljót að átta sig á því að hjá mér gætu þau fengið að éta og innan skamms voru þau farin að venja komur sínar til mín á hverjum degi. Ekki leið á löngu þar til þau voru farin að láta vita af sér, væru þau svöng, með því að krunka hvort í kapp við annað uppi á ljósastaur við húsið og þá flýtti ég mér út og gaf þeim ætan bita. Þetta gekk meira að segja svo langt að ég var bæði farin að elda ofan í þau auk þess sem ég sagði upp vinnunni minni, sem var vaktavinna, til þess að geta staðið mína plikt við hrafnana. Þáverandi kærastinn minn varð á endanum svo þreyttur á þessum hrafnagangi og spurði mig hversu langt ég ætlaði að ganga, hvort ég ætlaði einfaldlega að helga líf mitt hröfnunum. Hann sagði að ef þessu færi ekki að linna þá myndi hann fara frá mér. Þú um það, sagði ég, því ég vissi að hrafnarnir myndu halda tryggð við mig, þó hann gerði það ekki. 
Ég skora á frænda minn, Birki Þór Þorbjörnsson, að skrifa næsta pistil.

Áður birst í 18. tbl. Feykis 2020.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir