Selatalningin mikla 2014
Síðan 2007 hefur farið fram árleg selatalning á Vatnsnesi og á Heggstaðarnesi í Húnaþingi vestra á vegum Selaseturs Íslands á Hvammstanga. Markmiðið með talningunni er að afla þekkingar á fjölda sela á þessum slóðum.
Selatalningin mikla fer í ár fram þann 27. júlí og er hún framkvæmd í áttunda sinn. Talningin byggir algjörlega á þátttöku sjálfboðaliða sem vilja taka þátt í rannsóknarstörfum, ásamt því að njóta nærveru sela og náttúru. Talningarnar fara þannig fram að Vatnsnesi og Heggstaðarnesi er skipt niður í mismunandi svæði (2-7km löng, samtals um 100km strandlengja) og svo telja þátttakendur seli á sínu svæði.
Flestir ættu að geta fundið sér svæði við sitt hæfi, hvort sem er fjölskyldufólk í leit að léttri göngu í fjörunni eða íþróttagarpar að leita að erfiðri gönguferð. Að talningunni lokinni er niðurstöðum skilað til verkefnisstjóra og þá er boðið upp á kaffi á Selasetrinu.
Talningin er skemmtileg upplifun fyrir alla náttúru- og dýraunnendur Tekið skal þó fram að talningin hentar ekki börnum undir 5 ára og börn mega bara taka þátt í fylgd forráðamanna. Hingað til hefur áhuginn verið mikill bæði meðal heimamanna og ferðamanna.
Nauðsynlegt er að skrá þátttöku sína í síðasta lagi föstudaginn 25. júlí. Til að skrá sig og fá nánari upplýsingar um tímasetningu og fleira má hafa samband í netfang selasetur@selasetur.is eða í síma 451-2345.