Tíu einstaklingar í einangrun á Norðurlandi vestra

Alls hafa 25 einstaklingar náð bata eftir að hafa greinst með Covid 19 veiruna á Norðurlandi vestra en enn sæta tíu manns einangrun á svæðinu, samkvæmt tölum frá aðgerðastjórn almannavarna á Norðurlandi vestra. Alls sitja 32 í sóttkví en 438 hafa lokið henni.

„Taflan gefur fullt tilefni til bjartsýni en engu að síður má hvergi slaka á til að hægt verði að ná böndum utan um þetta sameiginlega verkefni okkar!“ segir í tilkynningu aðgerðarstjórnarinnar sem óskar landsmönnum gleðilega páska.

 

Tafla aðgerðastjórnar almannavarna á Norðurlandi vestra fyrir umdæmið á föstudeginum langa.

Tafla aðgerðastjórnar almannavarna á Norðurlandi vestra fyrir umdæmið á föstudeginum langa.

Á landsvísu hafa verið tekin 34.125 sýni og hafa alls verið staðfest 1.675 smit. Í einangrun eru 918, 40 á sjúkrahúsi og 11 á gjörgæslu. Samkvæmt tölum af covit.is hafa 751 náð bata, 3.678 í sóttkví en 14.846 lokið henni. Af þeim sem greinst hafa með COVID-19 á Íslandi eru sjö látin.

Á heimasíðu landlæknisembættisins má finna tíu heilræði sem byggja á niðurstöðum rannsókna á því hvað er mikilvægt að hafa í huga til að hlúa vel að andlegri, líkamlegri og félagslegri vellíðan. Heilræði dagsins í dag snýr að því að njóta augnabliksins.

"Þegar samkomum fækkar gefst tækifæri til að hægja aðeins á. Nýtum þessar aðstæður til að njóta augnabliksins og dvelja meira í núinu. Tökum eftir fegurðinni í litlu hlutunum í kringum okkur og í náttúrunni með öllum skynfærum. Leyfum þessum tíma að vera endurnærandi og gefandi fyrir okkur.

Kórónuveirufaraldurinn hefur sett daglegt líf flestra jarðarbúa í aðrar skorður en við höfum nokkurn tíman upplifað. Við hittum færra fólk og margt af því sem venjulega fyllir líf okkar er geymt til betri tíma. Við þetta getur skapast ákveðið tómarúm.

En í þessu sem öðru felast einnig tækifæri. Hversu oft höfum við hugsað að við þyftum einmitt að draga úr áreitinu í kringum okkur? Nú er kannski tækifæri til að gera minna og vera meira. Leyfa dögunum að taka á sig hægari mynd. Lesa blöðin, vökva blómin, taka lengri göngutúra og gefa hverri athöfn þann tíma sem hún þarf í stað þess að þeysast úr einu í annað. Taka eftir vorinu sem er að kvikna allt um kring, hlusta á fuglasönginn sem vekur okkur á morgnana, finna ilminn af uppáhaldsdrykknum okkar, horfa upp í litbrigði himinsins, finna hvernig vatnið fellur á líkama okkar í sturtunni, borða hægt og njóta matarins."

Sjá nánar HÉR

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir