Bækur eins og eðalvín og sérvitringar, batna með aldrinum

Bókaunnandinn og hestakonan Arnþrúður Heimisdóttir. Aðsend mynd.
Bókaunnandinn og hestakonan Arnþrúður Heimisdóttir. Aðsend mynd.

Það var Fljótakonan, Arnþrúður Heimisdóttir, túristabóndi og hrossaræktandi með öllu sem því tilheyrir, sem svarðir spurningum Bók-haldsins í 18. tölublaði Feykis 2020. Hún hefur fjölbreyttan bókmenntasmekk þó sögur af mannraunum og svaðilförum heilli hana einna mest. Þar sem eldri bækur höfða mikið til Arnþrúðar kemur það sér vel að þurfa ekki að fara langt til að komast í fornbókaverslun en ein slík er einmitt rekin á næsta bæ, hjá Erni Þórarinssyni á Ökrum, og er hún að sjálfsögðu uppáhalds bókabúð Arnþrúðar.

Hvers konar bækur lestu helst?
Uppáhaldsbækur mínar, þegar ég finn þær, eru ævisögur um seiglu og þrautseigju fólks við ævintýralega erfiðar aðstæður. Til dæmis hræðilega misheppnaðar fyrstu ferðir manna til Suðurpólsins, sögur um skipreika menn er fljóta um mánuðum saman í steikjandi sólarbreyskju Kyrrahafsins, sögur almennings í styrjaldarátökum mannkynssögunnar, sögur forfeðra okkar er lifðu af ómennskan þrældóm og gegndarlausan sult fyrri alda og aðrar viðlíka upplífgandi spennusögur.

Hvaða bækur voru í uppáhaldi hjá þér þegar þú varst barn?
Ronju ræningjadóttur ber fyrsta að nefna, enda um að ræða kvenmann sem sóttist í óbeislaða náttúru og umgekkst harðfylgið fólk af báðum kynjum... ævi mín í hnotskurn? Skruddan Goð og garpar var mér gefin er ég var átta ára óharðnaður stelpugopi og hún mótaði mig fyrir lífstíð, er gerð fyrir börn en segir allar sögur goðafræði Snorra Sturlusonar á merkilega harðsnúinni og fornlegri íslensku Sigurðar Magnússonar. „Vitið þér enn eða hvað?“

Hver er uppáhaldsbókin af þeim sem þú hefur lesið gegnum tíðina?
Sýnisbók íslenzkra bókmennta til miðrar átjándu aldar, tekin saman af Sigurði Norðdal og fylgifiskum. „Upp skalt á kjöl klífa, köld er sjávar drífa, kostaðu hug þinn herða, hér muntu lífið verða. Skafl, beygjattu skalli, þótt skúr á þig falli. Ást hafðir þú meyja, eitt sinn skal hver deyja.“ Sjáið þið ekki fegurðina í þessu? Ef ég mætti bara eiga eina bók væri það þessi.

Hver er þinn uppáhaldsrithöfundur og hvers vegna?
Þar má til dæmis geta Terry Pratchett, hvers bækur við hjónin eigum í tylftatali. Þetta eru óborganlegar háðsádeilur, kaldhæðnislegar, gallsúrar. Pratchett hefur lifað ævi sína í tröllauknum ofskynjunum að detta þetta allt í hug. Ef þið eigið Kyndil þá mæli ég með því að kaupa allt sem þið finnið með þessum höfundi, þá lítið þið margan glaðan dag næstu árin. Einnig bendi ég enskumælandi hestamönnum sem eru Kyndils-eigandi bókaormar (örlítið þröngur markhópur) á höfundinn Dick Francis, er skrifar morðgátur er gerast í veðhlaupaheiminum í Bretlandi. Aðalhetjan er gjarnan glannalega fífldjarfur og skuggalega léttur veðhlaupaknapi.

Hvaða bækur eru á náttborðinu hjá þér þessa dagana?
Endurminningar: Kristín Dahlstedt. Fædd í Dýrafirði 1876, fór ung til Danmerkur hvar hún nam margt um hótelrekstur (vann þar reyndar meira og minna 100 tíma vinnuviku í átta ár) og flutti svo til Íslands og stofnaði og rak annasaman og frumlegan veitingarekstur alla sína hunds- og kattartíð. Einkar lífsglöð og skemmtileg lesning.

Ertu fastagestur á einhverju bókasafni?
Ætli bókasafns-maddaman á Siglufirði ættleiði ekki fjölskylduna fljótlega.

Áttu þér uppáhaldsbókabúð?
Fornbókasala Arnar Þórarinssonar á Ökrum og alnetinu (hann svarar líka talsíma) er auðvitað skemmtilegasta bókabúð landsins. Nú geta bókaormar rifið upp næsta netvædda tæki og komist í bókabúð í sveit. Þar er líka gjarnan kaffi á könnu.

Hvað áttu margar bækur í bókahillunum heima hjá þér?
Þær eru nokkur hundruð, og ef bókakassarnir undir þakskegginu og uppsafnaðar barnabækur eru taldar með teljast þær í þúsundavís. Tja, sérviskan ríður ekki við einteyming.

Hvað kaupirðu eða eignast að jafnaði margar nýjar bækur yfir árið?
Mér finnast nú bækur eins og eðalvín og sérvitringar, batna með aldrinum, svo ég kaupi aðallega fornbækur en sjaldan nýjar bækur.

Eru ákveðnir höfundar/bækur sem þú færð „alltaf“ í jólagjöf?
Fræðibækur, til dæmis um forystufé eða byggðasögu, Útkall veldur líka kossaflóði yfir fjölskylduna en í framhaldinu missi ég yfirleitt líka úr svefn eina nótt.

Hefur einhver bók sérstakt gildi fyrir þig?
Jólavaka eftir Jóhannes úr Kötlum, Heimir Steinsson, faðir minn heitinn, las fyrir okkur afsprengin við aðventukransinn, öll sunnudagskvöld aðventunnar. Það voru kaflar úr Jólavökunni auk ýmissa hugvekja sem mannbætandi voru. Þær minningar fylgja alla ævi er ég glugga í það aldna rit er rétt svo hangir saman á spjöldunum vegna lesturs.

Hefur þú heimsótt staði sem tengjast bókum eða rithöfundum þegar þú ferðast um landið eða erlendis?
Verður maður ekki að líta heimkynni goðanna? Að sjálfsögðu.

Ef þú ættir að gefa einhverjum sem þér þykir vænt um bók, hvaða bók yrði þá fyrir valinu?
Ef um væri að ræða barn eða foreldri væri það öndvegisverkið Rebbi og Héra, en fullorðinn fengi Leiðarvísir puttaferðalangsins um Vetrarbrautina. Einungis dauður maður getur þrælast gegnum þessar bækur án magakrampa af hlátri.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir