Til veiga, til veiga vér vekjum sérhvern mann - kominn er illviðrakonungurinn þorri enn.

Þorrinn heilsar heldur hranalega á Norðurlandi í dag. Mynd:FE
Þorrinn heilsar heldur hranalega á Norðurlandi í dag. Mynd:FE

Í dag er bóndadagur eða fyrsti dagur þorra samkvæmt gamla íslenska tímatalinu og er hann þar fjórði mánuður vetrar, næstur á eftir mörsugi. Þorri hefst ætíð á föstudegi á tímabilinu 19.-25. janúar og lýkur á laugardegi fjórum vikum síðar en næsti mánuður, góan, heilsar á sunnudegi.

Í fróðlegri grein um þorrann í Bændablaðinu frá 16. febrúar 2017 segir þetta um bóndadaginn:

Fyrsti dagur þorra er, sem flestir þekkja, kallaður bóndadagur, einnig nefndur miðsvetrardagur eða fyrsti þorradagur. Fyrstu prentuðu heimildir um daginn koma fram í þjóðsagnasafni Jóns Árnasonar frá 1864. Þar segir að dagurinn sé helgaður húsbóndanum og að það hafi verið skylda bænda að „fagna þorra“ með því að halda veislu fyrir aðra bændur í sveitinni eða „bjóða honum í garð“. Samkvæmt því sem Jón Árnason segir fól það síðarnefnda í sér að bændur áttu að fara á fætur fyrstir allra og „[…] fara ofan og út í skyrtunni einni, vera bæði berlæraðir og berfættir, en fara í aðra brókarskálmina og láta hina svo lafa eða draga hana á eftir sér á öðrum fæti, ganga svo til dyra, ljúka upp bæjarhurðinni, hoppa á öðrum fæti í kringum allan bæinn, draga eftir sér brókina á hinum og bjóða þorra velkominn í garð eða til húsa“.

Líklega eru þeir fáir bændurnir sem halda þessum sið enda varla heiglum hent þar sem veður á þorra eru oft býsna hryssingsleg, rétt eins og kemur fram í ýmsum kvæðum sem um þorra hafa verið ort. Allir þekkja ljóð Kristjáns fjallaskálds, Þorraþrælinn 1866 sem hefst svo: „Nú er frost á fróni, frýs í æðum blóð. Kveður kuldaljóð, Kári í jötunmóð. Yfir laxalóni, liggur klakaþil. Hlær við hríðarbyl, hamragil.“

Í áðurnefndri grein í Bændablaðinu segir ennfremur:

Blót í tengslum við þorrann benda til þess að menn hafi áður fyrr viðhaft einhverja siði eða blót í þeim tilgangi að blíðka þorrann enda var hann enginn aufúsugestur heldur boðberi frosthörku, harðinda og hungurs eins og að framan getur. Þorrinn sem vetraröldungur var algengt yrkisefni á 17.–19. öld. Þar er honum m.a. lýst sem stórskornum öldungi, konungi, fornkappa eða glæsilegum víkingi. Mismunandi er hvort hann er sagður harður og grimmur eða einungis heimtufrekur og geðstirður. Þar er einnig fjallað um mikilvægi þess að taka vel á móti þorra í mat, drykk og klæðum. Konur eiga að stjana við hann og honum er skemmt á ýmsa vegu, með söng, sögum, tafli og spili. Sé gestrisninni ábótavant má búast við grimmilegum hefndum þorra. Karl f. 1895, úr Skagafirði (ÞÞ3646), nefnir eftirfarandi kvæði sem farið var með til að blíðka þorra og bjóða hann velkominn:

Til veiga, til veiga vér vekjum sérhvern mann
kominn er illviðrakonungurinn þorri enn.
Kaldur og fokreiður ættjörð vorri
með blóti, með blóti vér blíðka þurfum hann.

Til friðar, til friðar vér flytjum þorra skál,
blótum til árs og gæfta góðra,
svo gefi til lands og sjávarróðra!
Vér klingjum, vér klingjum og kætum líf og sál.

Nú er, eins og allir vita, þannig ástatt þjóðfélaginu að ekki gefst færi á miklum þorrablótum eins og tíðkast hefur. Einhverja nasasjón hefur þorri kallinn líklega haft af því að minna yrði um að hann yrði blíðkaður með blótum að þessu sinni og gengur í garð með látum um norðan og austanvert landið. Það er þó vonandi að sem flestir reyni að klóra í bakkann og gera vel við sig í kvöld með góðum þorramat og reyna með því að gera sitt til þess að draga úr veðurhörkunum sem úti geisa.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir