Vetrarsólstöður í dag

Horft beint ofan á Norðurpólinn: Dagur og nótt á jörðinni núna, 21. desember 2020, kl. 11:34. Mynd:vedur.is.
Horft beint ofan á Norðurpólinn: Dagur og nótt á jörðinni núna, 21. desember 2020, kl. 11:34. Mynd:vedur.is.

Vetrarsólstöður eru í dag á norðurhveli jarðar en frá þeim tíma tekur sól að hækka á lofti á ný. Á suðurhvelinu eru hins vegar sumarsólstöður.

Á vefnum Íslenskt almanak segir: „Sólstöður eða Sólhvörf er sú stund þegar sól fer lengst frá miðbaug himins til norðurs eða suðurs. Sólstöður eru tvisvar á ári og hérlendis eru sumarsólstöður á tímabilinu 20.-22. júní þegar sólargangurinn er lengstur og vetrarsólstöður 20.-23. desember þegar hann er stystur. Breytileiki dagsetninganna stafar fyrst og fremst af hlaupársdögum.“

Í töflu um sólargang á vef Veðurstofu Íslands má sjá að sólargangur er mislangur eftir stöðum. Þannig rís sól klukkan 11:22 og sest klukkan 15:29 í Reykjavík svo sólar nýtur þar í rúmar fjórar klukkustundir en í Grímsey rís sólin klukkan 12:03 og sest klukkan 14:17, rétt rúmum tveimur tímum síðar.

Á Hvammstanga er sólaruppkoma klukkan 11:43 og sólarlag klukkan 15:01, á Blönduósi er sólargangur frá klukkan 11:46 til 14:52 og á Sauðárkróki milli 11:46 og 14:47.

Í dag verða pláneturnar Júpíter og Satúrnus nær hvor annarri á himni en þær hafa verið í rúm 400 ár eða síðan 16. júlí árið 1623. Á Stjörnufræðivefnum segir að líklega hafi enginn séð samstöðuna þá þar sem pláneturnar voru svo nálægt sólinni. Til að finna álíka þétta samstöðu plánetnanna sem lá vel við athugun þarf að fara alla leið aftur til Sturlungaalda, nánar tiltekið þann 4. mars árið 1226, sama ár og Viðeyjarklaustur var stofnað. Nánar um þetta á stjornufraedi.is.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir