Afdalabarn Guðrúnar frá Lundi endurútgefin
Á morgun er væntanleg í verslanir bókin Afdalabarn eftir Guðrúnu frá Lundi. Er það fyrsta bók Guðrúnar sem er endurútgefin síðan Dalalíf var endurútgefin árin 1982-1984 og aftur 2000, og kom einnig út sem hljóðbók árið 2012. Aðrar bækur Guðrúnar hafa ekki verið endurútgefnar.
Bókaforlagið Sæmundur á Selfossi gefur bókina út, en það er Bjarni Harðarson sem rekur forlagið, samhliða Sunnlenska bókakaffinu. Bjarni segir það raunar lengi hafa komið til tals að endurútgefa eitthvað eftir Guðrúnu, enda verður hann var við það í fornbókabúðinni að mikil og jöfn eftirspurn er eftir bókum Guðrúnar. Alltaf eru einhverjar bækur í umferð, en bækur Guðrúnar hafa flestar verið uppseldar frá því skömmu eftir að þær komu út.
Bjarni sagði í samtali við Feyki á dögunum að slík væru raunar örlög íslenskra bóka. „Það þarf 1000 eintök til að endurútgáfa borgi sig og þau er raunar bara einstaka „klassík“ eftir Halldór Laxnes og slíkar bækur sem standa undir því,“ sagði Bjarni en kvaðst þó bjartsýnn á þessa nýju útgáfu og að ef vel tækist tilmætti skoða að endurútgefa fleira eftir Guðrúnu.
Bjarni sagði í samtali við Feyki á dögunum að það væri fólk á öllum aldri og af báðum kynjum sem sæktist eftir bókum Guðrúnar, þó konur væru þar í meirihluta. Guðrún hefði raunar hlotið ákveðna uppreisn æru á allra síðustu árum. „Guðrún sameinar vel að skrifa rómantískar sveitasögur og vera raunsæishöfundar. Það eru ekki margir höfundar sem færa mann í þetta sveitasamfélag fyrir 100 árum á jafn sannfærandi hátt. Guðrún er öflug í persónuuppbyggingu og stendur fyllilega undir vinsældum sínum,“ sagði Bjarni.
Bjarni tekur undir að segja megi að Guðrún hafi komist í tísku að undanförnu. „Ýmsir höfðu horn í síðu hennar hér áður og gerðu lítið út henni sem höfundi en það er nú á undanhaldi.“ Það hefur líka aukist að menn hafi fjallað um Guðrúnu sem rithöfund og má í því samhengi nefna Hallgrím Helgason. Þannig má tildæmis nefna að árin 2010 og 2011 héldu heimamenn í fæðingarsveit hennar, Fljótunum, í samvinnu við Guðjón Jónasson og afkomanda Guðrúnar, málþing um Guðrúnu og verk hennar.
„Afldalabarn hefur þessi skemmtilegu höfundareinkenni Guðrúnar. Þetta er sveitasaga – raunsæ saga af stéttarskiptinu og baráttu lítilmagnans. Þetta er saga með frekar ásættanlega endir, en þannig sker Guðrún sig frá raunsæisáhrifunum og rómantíkin tekur völdin,“ segir Bjarni aðspurður um bókina sem nú kemur út. Hallgrímur Helgason rithöfundur og myndlistarmaður skrifar eftirmála að bókinni og myndskreytir bókarkápu.