Ályktun stjórnar SSNV vegna niðurskurðaráforma til heilbrigðisstofanna á Norðurlandi vestra
Stjórn Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra mótmælir harðlega niðurskurðaráformum stjórnvalda sem viðkoma Heilbrigðisstofnunum á Norðurlandi vestra og eru settar fram í frumvarpi til fjárlaga 2011.
30% niðurskurður á Heilbrigðistofnuninni á Sauðárkróki og 13% niðurskurður á Heilbrigðisstofnuninni á Blönduósi er ekkert annað en aðför að þessum stofnunum og afhjúpar virðingarleysi heilbrigðisyfirvalda til íbúa á þessum svæðum. Nú þegar hefur þjónusta þessara stofnana verið skert og er með því alvarlega vegið að velferðarþjónustu í þessum byggðalögum. Minnt er á að þessar stofnanir tóku á sig meiri hlutfallslega skerðingu á árinu 2010 en flestar aðrar heilbrigðisstofnanir í landinu.
Ekki liggur fyrir mat á samfélagslegum áhrifum sem boðaður niðurskurður mun hafa í för með sér í umræddum byggðalögum en vafalaust munu áformin leiða til aukins atvinnuleysis með tilheyrandi kostnaði fyrir ríkissjóð, og íbúafækkunar með tilheyrandi tekjutapi fyrir sveitarsjóði. Þá er ótalinn sá öryggisþáttur sem aðgengi að heilbrigðisþjónustu í heimabyggð er og sá aukni kostnaður sem íbúar þurfa að greiða fyrir, við að sækja þjónustu annað. Verið er að velta kostnaði yfir á íbúa landsbyggðarinnar sem þýðir í raun að lagður er á nýr landsbyggðarskattur.
Stjórnin átelur heilbrigðisráðuneytið fyrir samráðsleysi við ákvörðun um slíkar grundvallarbreytingar á heilbrigðisþjónustu í landshlutanum og skorar á Heilbrigðisráðherra að endurskoða boðuð niðurskurðaráform og heitir á alþingismenn NV kjördæmis að beita sér fyrir að endurskoðun á fjárheimildum til stofnanna.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.