Árlegur fræðsludagur skólanna í Skagafirði

Fræðsludagurinn var vel sóttur. Mynd: FE
Fræðsludagurinn var vel sóttur. Mynd: FE

Herdís Sæmundardóttir, sviðsstjóri fjölskyldusviðs, setti fræðsludaginn.Síðastliðinn þriðjudag var fræðsludagur leik- grunn- og tónlistarskóla í Skagafirði haldinn í Miðgarði í Varmahlíð. Fræðsludagurinn er árviss viðburður í upphafi skólaárs og er þetta í áttunda sinn sem hann er haldinn á vegum fræðsluyfirvalda í Skagafirði. Þar koma allir starfsmenn skólanna saman til að fræðast og bera saman bækur sínar.

Dagskráin var fjölbreytt að vanda. Eftir setningarávarp Herdísar Sæmundsdóttur, sviðsstjóra fjölskyldusviðs, kynnti Selma Barðdal, skólafulltrúi, marghliða sérfræðiþjónustu sem skólunum stendur til boða. Að því loknu fjallaði Helga Harðardóttir, kennsluráðgjafi, um matsaðferðir skólanna og nýjungar á því sviði og því næst kynntu Sigurlaug Rún Brynleifsdóttir og Anna Steinunn Friðriksdóttir, sem báðar eru deildarstjórar stoðþjónustu, nýútgefna lestrarstefnu Skagafjarðar sem unnið hefur verið að undanfarin tvö skólaár.

Elísa Guðnadóttir, sálfræðingur, fjallaði um álag, streitu og streitustjórnun og leiðir til úrbóta í erindi sínu sem bar yfirskriftina „Hvernig á ég að lifa veturinn af?" Ingvi Hrannar Ómarsson, kennsluráðgjafi, kynnti upplýsingatækni í grunnskólum fyrir starfsfólki grunnskólanna ásamt þeim Bergmanni Guðmundssyni og Álfhildi Leifsdóttur. Á meðan hélt Elísa Guðnadóttir, sálfræðingur, erindi ætlað leikskólastarfsfólki um leiðir til að bæta hegðun og líðan leikskólabarna og tónlistarkennarar fengu erindi um þróunarstarf í tónlistarskólum sem Helga Sighvatsdóttir, aðstoðarskólastjóri Tónlistarskóla Árnesinga, flutti og einnig fjallaði Freyja Gunnlaugsdóttir, aðstoðarskólastjóri við Tónlistarskóla Reykjavíkur, um tónlistarmenntaskóla.

Sigurlaug Rún Brynleifsdóttir og Anna Steinunn Friðriksdóttir kynntu nýja lestrarstefnu Skagafjarðar.

Svo virðist sem veðurguðirnir hafi sammælst um að bjóða jafnan upp á afbragðs veður þennan dag, svona rétt til að stríða þeim sem eru að snúa til baka úr sumarfríi. Engu að síður var fræðsludagurinn vel sóttur að vanda og að sögn Herdísar Sæmundsdóttur voru um 180 manns saman komnir í Miðgarði og áttu þar góðan dag.

 

Fleiri fréttir