Bústin ber og girnilegt grænmeti

Þorvaldur og Kristín í versluninni í Skrúðvangi. Myndir: FE
Þorvaldur og Kristín í versluninni í Skrúðvangi. Myndir: FE

Gróðurhúsið Skrúðvangur á Laugarbakka í Miðfirði hefur nú fengið andlitslyftingu eftir að nýir eigendur festu kaup á húsunum og hófu þar starfsemi. Þar standa nú vaktina hjónin Þorvaldur Björnsson og Kristín Guðmundsdóttir og bjóða viðskiptavinum upp á margvíslegt góðgæti sem þau hafa á boðstólum.

Þetta er annað árið sem þau Kristín og Þorvaldur reka Skrúðvang en þau leigðu húsin á síðasta ári og voru þá með jarðarberjauppskeru í fyrsta sinn og festu svo kaup á eigninni í október síðastliðnum. Á staðnum hafa verið ræktuð jarðarber um nokkurra ára skeið en þau hafa bætt við mörgum vörutegundum í framleiðsluna og hugurinn stendur til að auka úrvalið enn meir.

Blaðamaður leit við í Skrúðvangi á dögunum og hitti Kristínu að máli og innti hana fyrst eftir hvað hafi komið til að þau helltu sér út í þetta verkefni.

„Bara einskær áhugi,“ segir Kristín. „Ég er ekki viss um að maður geti stólað á að verða ríkur af þessu en þetta hefur verið draumur lengi, að vera að rækta eitthvað. Hugmyndin nær reyndar dálítið lengra því Þorvaldur er kokkur og draumurinn er að hann geti ræktað það sem hann eldar úr. Þetta er kannski bara upphafið að því.“

Ræktunin fer fram í tveimur 500 m2 húsum. Í öðru þeirra vaxa bústin jarðarber sem eru stærsti hluti framleiðslunnar en í hinu dafna gúrkur og tómatar og hinar ýmsu kryddjurtir. Einnig rækta þau salat, grænt og rautt grænkál og spínat í útiræktun. „Upphaflega pælingin var að reyna að rækta í allri jörðinni sem er rétt tæpur hektari. En svo komumst við að því að það er ekki hægt að bíða eftir því að það komi í ljós hvort hið íslenska sumar kemur eða ekki þannig að við erum að íhuga að festa kaup á köldu gróðurhúsi til að hafa eitthvert veðuröryggi innandyra. Við ætlum ekki að fara út í fleiri upphituð hús,“ segir Kristín og bætir við að trúlega eigi þau eftir að fjölga gúrku- og tómatplöntum til að mæta þörfum veitingahúsanna í nágrenninu. „En svo erum við líka svolítið nýjungagjörn og ég gæti séð fyrir mér að vera kannski með lítil grasker og þarna erum við að prófa eggaldin,“ segir hún og bendir á gerðarlegar plöntur í einu beðinu.

Hvert seljið þið aðallega?

„Við seljum mikið hérna út hjá okkur, mikið fer á hótelið hér við hliðina og á veitingastaðina á Hvammstanga og einnig í Kaupfélagið. Það sem ekki selst á neinum af þessum stöðum fer annað hvort í sölu hjá Sölufélagi íslenskra garðyrkjubænda eða í vöru sem við vinnum hér hjá okkur,“ segir Kristín en verið er að leggja lokahönd á vottað eldhús þar sem ætlunin er að framleiddar verði sultur og sósur og ýmislegt annað úr því sem til fellur.

Kristín segir að þau hafi fengið mjög góðar viðtökur og góðan meðbyr með því sem þau eru að fást við. „Fólki finnst frábært að þetta sé ekki bara í niðurníðslu ennþá. Hugmyndin er svo að auka vöruúrvalið þannig að fólk geti komið og verslað mikið af því grænmeti sem það þarf fyrir vikuna hér þannig að það sé ekki bara að koma eftir einu boxi af jarðarberjum.“

Þegar komið er inn í Skrúðvang er nánast óhjákvæmilegt að litríkar garnhespur sem hanga á einum veggnum fangi huga fólks, allavega þeirra sem hafa gaman af prjónaskap. Kristín hefur um nokkurt skeið fengist við að lita og selja garn undir merkinu Vatnsnes Yarn og fæst það í vefverslun hennar, vatnsnesyarn.is, en einnig í nokkrum búðum í Reykjavík og í verslun á Ísafirði og á Sauðárkróki. Hún segist flytja allt sitt garn inn og leggur mikla áherslu á að allt sem hún selur sé framleitt á vænan máta fyrir bæði náttúru, menn og dýr. „Ég kaupi garnið ekki inn hvar sem er, ég vel að panta frá þeim spunaverksmiðjum sem hafa mannúðleg sjónarmið og hugsa um dýraverndun og um náttúruna,“ segir Kristín sem leggur auðsýnilega mikla alúð í framleiðslu sína enda um sérlega fallega vöru að ræða.

Það ætti sannarlega að vera þess virði að kíkja í heimsókn í Skrúðvang fyrir alla þá sem langar í grænmeti, garn og girnileg ber. Upplýsingar um staðinn og opnunartíma má finna á Facebooksíðunni Skrúðvangur Gróðurhús.

 

 

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir