Byggðasafn Skagfirðinga 70 ára
Í gær 29. maí voru liðin 70 ár frá stofnun Byggðasafns Skagfirðinga árið 1948 en fastasýning var opnuð í Glaumbæ þann 15. júní fjórum árum seinna, 1952. Safnið er eign Akrahrepps og Sveitarfélagsins Skagafjarðar og segir í stofnskrá að hlutverk þess sé að safna, varðveita og rannsaka muni og minjar úr Skagafjarðarhéraði og miðla þeim til almennings.
Elsta stofnskrá safnsins gilti frá stofnun 1948 til 1989 meðan byggðasafnsnefnd stýrði safninu fyrir hönd sýslunefndar. Héraðsnefnd tók svo við rekstri safnsins 1989 og þá var stofnskráin endurnýjuð í samræmi við það. Við sameiningu sveitarfélaganna í Skagafirði árið 1998 breyttist eignarformið og nýtt sameinað Sveitarfélag Skagafjörður og Akrahreppur urðu eigendur safnsins. Yngsta stofnskrá safnsins er frá 1. janúar 2013 og var hún endurnýjuð í samræmi við áherslur nýrra laga og tilmæla frá Safnaráði.
Safnið hefur haft fimm hús fyrir starfsemi sína undanfarin ár en þau eru gamli torfbærinn í Glaumbæ, Áshúsið, Gilsstofan og Minjahúsið á Sauðárkróki, sem nú hefur lokið hlutverki sínu.
Í inngangi stefnuskrár safnsins segir að miklar breytingar hafi orðið á högum byggðasafna frá því þau voru sett á fót á 20. öld. Þau séu ekki lengur varðveislustofnanir sem sýna hvað til er af safngripum og segja sögu þeirra því þau eru mörg hver orðin virkir þátttakendur í samfélagsþjónustu og ímyndarsköpun byggðarlaganna sem að þeim standa. Starfsemi Byggðasafns Skagfirðinga beinist fyrst og fremst að þekkingarsköpun og fræðslu.
Á Facebooksíðu safnsins segir að komnar séu myndir af flestum safngripum á Sarp, (sarpur.is) sem er miðlægur gagnagrunnur íslensku minjasafnanna. „Við byrjum auðvitað á að kynna safngrip nr. 1, kistu frá 1850. Kistan er í sýningu í gamla bænum í Glaumbæ sem fjallar um mannlíf í torfbæjum 1850-1950,“ segir á síðunni.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.