Enn skal sorfið að Háskólanum á Hólum

Menntakerfi Íslands á háskólastigi hefur verið fjársvelt á undanförnum árum, hvort heldur sé tekið mið af fjármögnun háskólanáms á Norðurlöndum eða meðal ríkja OECD, og hefur Háskólinn á Hólum ekki farið varhluta af þeirri uggvænlegu þróun. Í ályktun frá háskólaráði skólans kemur fram að álag og kröfur á starfsmenn skólans hafi margfaldast, og enn skal sorfið að sé mið tekið af frumvarpi til fjárlaga 2015.

Í ályktunninni segir að ársverkum við skólann hafi fækkað um 20% frá árinu 2009 (úr 51,6 í 40) á sama tíma og kostnaður vegna stundakennslu stendur í stað, eins og sést á meðfylgjandi mynd. „Álag og kröfur á starfsmenn skólans hafa margfaldast, og enn skal sorfið að sé mið tekið af frumvarpi til fjárlaga 2015. Samkvæmt frumvarpinu verður ekki greitt með 68 nemendum og nemur sú upphæð allt að 60 milljónum króna sem í raun vantar upp á eðlilegan rekstur skólans.“

tafla holaskoliHáskólinn á Hólum hefur í gegnum árin haft hátt hlutfall sértekna m.a. á formi rannsóknastyrkja og fagnar Háskólaráð því að í fjárlögum sé veitt auknu fé í samkeppnissjóði en leggur áherslu á að rekstrarumhverfi skólans verður jafnframt að vera tryggt.

„Háskólaráð Háskólans á Hólum skorar á þjóðkjörna fulltrúa að efla háskólanám á Íslandi og stuðla þannig að jákvæðri þróun efnahagslífs á Íslandi til framtíðar,“ segir í ályktuninni.

Fræðasvið skólans styðja við ört vaxandi atvinnugreinar

Háskólinn á Hólum er menntastofnun sem hefur sérhæft sig í rannsóknum og kennslu í ferðamálafræðum, fiskeldi- og fiskalíffræði og hestafræðum. Öll fræðasvið háskólans styðja þannig við ört vaxandi atvinnugreinar sem allar skapa þjóðfélaginu auknar og nauðsynlegar gjaldeyristekjur. Aukin verðmætasköpun atvinnugreinanna byggir á menntun fagfólks, rannsóknum, nýsköpun og uppbyggingu þekkingar um allt land.

„Háskólinn á Hólum þjónar nemendum af öllu landinu, þó stærstur hluti nemenda hans komi af höfuðborgarsvæðinu. Staðsetning skólans og aðstaða er fágæt og veitir nemendum einstakt tækifæri til menntunar. Námsframboð Háskólans á Hólum eykur fjölbreytni háskólanáms á Íslandi og um það ber að standa vörð, íslensku atvinnulífi og efnahag til hagsbóta,“ segir loks í ályktuninni.

Fleiri fréttir