Evrópsk kvikmyndahátíð - allan hringinn

Í júnímánuði efna Evrópustofa og Bíó Paradís enn á ný til Evrópskrar kvikmyndahátíðar – en að þessu sinni verður boðið upp á brot af hinu besta í evrópskri kvikmyndagerð hringinn í kringum landið dagana 1.- 10. júní. Sýnt verður á Blönduósi 5. júní. 

Á hverjum stað eru sýndar þrjár myndir, Antboy kl 16:00, Málmhaus kl. 18:00 og The Broken Circle Breakdown kl 20:00. Enginn aðgangseyrir verður á hátíðina.

,,Við höfum nú í tvígang haldið evrópska kvikmyndahátíð í Reykjavík og á Akureyri sem hafa gengið afar vel. Því vaknaði sú hugmynd að fara víðar og heimsækja bæi hringinn í kringum Ísland sem fá ef til vill ekki oft tækifæri til að sjá verðlaunamyndir af hæsta gæðaflokki og í bestu stafrænu gæðum sem völ er á,” segir Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastýra Evrópustofu. ,,Við munum bjóða upp á þrjár kvikmyndir á hverjum stað – eina barnamynd og tvær fyrir eldri kynslóðina – og verður frítt inn á sýningar. Tilgangurinn er fyrst og fremst að kynna og breiða út evrópska menningu.”

Það er óhætt að segja að áætlanir um hringferðina hafi vakið athygli en blaðamaður breska dagblaðsins The Guardian mun slást í för og fjalla um hátíðina og hvernig hún fellur í kramið!

Hrönn Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri Bíó Paradísar, segir samstarfið við Evrópustofu og áhersluna á hágæða evrópskar myndir hafa verið afar farsælt. ,,Evrópskir kvikmyndagerðarmenn eru fremstir meðal jafningja og það er okkur því sönn ánægja að beina kastljósinu að evrópskri kvikmyndagerð og menningu og færa hana til landsbyggðarinnar. Bíó Paradís kom sér nýverið upp fullkomnum stafrænum sýningarbúnaði sem við munum nýta í hringferðina – sýningargæðin verða því hæsta gæðaflokki“.

Hringferðin nýtur einnig stuðnings Kvikmyndamiðstöðvar Íslands en Evrópulöndin eru stærstu samstarfsaðilar Íslands í kvikmyndagerð. Fjölmargar íslenskar kvikmyndir hafa notið ríkulegs stuðning af MEDIA áætlun Evrópusambandsins en frá því að Íslendingar hófu þátttöku í kvikmynda- og margmiðlunaráætlun ESB hafa íslensk kvikmyndafyrirtæki og íslenskar kvikmyndir fengið tæpan milljarð í víkjandi lánum og styrkjum, eða u.þ.b. 48 milljónir á ári í 21 ár.

Hátíðarsýning í Mosfellsbæ – lagt af stað!
Leikar hefjast með sérlegri hátíðarsýningu í Hlégarði í Mosfellsbæ sunnudaginn 1. júní kl 14:30 þar sem hin margverðlaunaða danska fjölskyldumynd Antboy verður sýnd með íslenskri talsetningu. Kaffiveitingar verða í boði og allir eru velkomnir! Ókeypis er inn á alla dagskrá hátíðarinnar.

Nánar er hægt að skoða um hátíðna á fésbókarsíðu hennar.

Fréttatilkynning

Fleiri fréttir