Fimm fyrirtæki undir sama þaki í Villunni

Eigendur Villunnar þau Eyrún, Sveinn, Jónína, með dótturina Bergdísi Lilju, og Eyþór. Myndir:FE
Eigendur Villunnar þau Eyrún, Sveinn, Jónína, með dótturina Bergdísi Lilju, og Eyþór. Myndir:FE

Þann fyrsta maí var opið hús á Hólavegi 16 á Sauðárkróki, húsinu sem áður hýsti Lyfju en hefur nú staðið autt að hluta til í nokkurn tíma. Tilefnið var að

Jónína í Klippiskúrnum.

nýlega hófu fimm fyrirtæki starfsemi sína í húsinu sem hlotið hefur nafnið Villan. Hefur það verið tekið rækilega í gegn og gerbreytt frá fyrra horfi og er aðstaðan hin glæsilegasta í alla staði. Þetta eru Klippiskúrinn hársnyrtistofa, Fótaðgerðastofa Stefaníu, Nuddstofan Friðmey, Kírópraktorsstofa Íslands og Dekurlindin snyrtistofa. Það eru þau Eyþór Fannar Sveinsson og Jónína Róbertsdóttir ásamt foreldrum hans, Sveini Árnasyni og Eyrúnu Sigurbjörnsdóttur, sem eiga heiðurinn að endurbótunum á húsinu. Feykir tók þau Jónínu og Eyþór tali og forvitnaðist um framkvæmdirnar.

Aníta í Dekurlindinni.

Aðspurð að því hvernig hafi staðið á því að þau réðust í þetta mikla verk segja þau að lengi hafi staðið til að flytja hársnyrtistofu Jónínu, Klippiskúrinn, úr bílskúrnum við heimili þeirra. Þegar þau urðu fyrir því óhappi að lögn í skúrnum sprakk þannig að gólfefni og fleira eyðilagðist stóðu þau frammi fyrir því að fara í framkvæmdir þar, sem hefði stöðvað starfsemi stofunnar í talsverðan tíma, eða taka stökkið og finna sér nýtt húsnæði.

„Þá var þetta hús búið að vera á sölu upp undir ár, gæti ég trúað. Við vorum reyndar búin að skoða það áður, við kíktum á það áður en lögnin sprakk og vorum eiginlega hætt að hugsa um það en svo þegar óhappið varð var það kveikjan að því að láta vaða,“ segir Eyþór og Jónína bætir við að eftir að hafa skoðað húsið hafi hún ekki séð neitt annað fyrir sér en einmitt það. Þau segja að þessi hugmynd, að hafa marga rekstraraðila undir sama þaki, hafi verið mjög freistandi upp á félagslega þáttinn. Að vinna með fleirum sé skemmtilegra en að vinna alltaf einn og að geta boðið upp á fleira á sama stað skapaði einnig skemmtilegri stemningu.

Þorgerður í Friðmey.

„Við vorum ekki með neitt sérstakt í huga, við ætluðum bara að sjá til. Ef það hefði ekki verið í þessum business þá hefðum við bara leigt þetta út í einhverjum öðrum tilgangi en auðvitað var mest spennandi að fá einhverja í svipuðum geira. Síðan kom í ljós að við þurftum ekki að auglýsa,“ segir Jónína sem hafði verið búin að viðra þessa hugmynd við einhverja, áður en þau keyptu, sem svo hafi spurst út.

Iðnmenntunin kom að góðu gagni

Eyþór segir að framkvæmdirnar hafi vissulega tekið tíma. „Við fengum foreldra mína í þetta með okkur og það fyrsta sem við gerðum á árinu 2018 var að fara inn á fasteignasölu og bjóða í. Við vorum mjög föst á verðinu sem við vildum greiða svo það var nokkuð langt ferli og húsið var ekki afhent fyrr en í mars. Við reyndum að gera þetta með eins litlum kostnaði og mögulegt var. Ég teiknaði sjálfur breytinguna á húsinu sem við hönnuðum eftir ráðleggingum og í samstarfi við Atla Gunnar á Stoð, en honum er vert að þakka fyrir aðstoðina við að gera þetta mögulegt. Breytingin á húsnæðinu var það mikil að skila þurfti aðaluppdrætti með öllu og það fóru þarna einhverjir tveir mánuðir bara í að teikna og hugsa hvernig húsið yrði,“ segir Eyþór og Jónína skýtur því að að það hafi margar teikningar verið komnar áður en lokaniðurstaðan fékkst.

Stefanía hjá Fótaðgerðastofu Stefaníu. 

Gólfflötur hússins eru rúmir 400 m2 og fyrsta verkið var að skipta íbúðinni á efri hæðinni upp í tvær, en þegar þær voru báðar komnar í útleigu var hafist handa á neðri hæðinni. Þá var orðið ljóst hvaða aðilar kæmu þar inn þannig að hægt var að taka mið af þeirra starfsemi við hönnun húsnæðisins. Eyþór nefnir sem dæmi að allir veggir séu tvöfaldir þar sem starfsemi hússins sé þannig að lítið megi

heyrast á milli rýma. Þau segja að það hafi skipt höfuðmáli að geta unnið mikið sjálf að framkvæmdunum en Eyþ

ór er bæði rafvirki og smiður og segir þetta gott dæmi um hvað iðnmenntun getur komið í góðar þarfir í lífinu og það sé gaman að sjá þetta verk eftir sig. Einnig segja þau að stuðningur frá fjölskyldum þeirra hafi verið ómetanlegur, bæði að fá foreldra Eyþórs inn í dæmið sem meðeigendur og að aðrir meðlimir í fjölskyldunum hafi aðstoðað í einu og öllu, þ.á.m. með mikla pössun á litlu dótturinni sem Eyþór segist lítið hafa séð síðasta árið.

Aðstaða Kírópraktorsstofu Íslands.

Eins og getur nærri er unga parið hið ánægðasta með verkið og segja þau að viðtökurnar hafi verið afar góðar. Fjölmargir gestir komu við á miðvikudaginn og telja þau að trúlega hafi 3-400 manns litið við í Villunni á Hólavegi 16. Þau vilja þakka öllum þeim sem komu að verkinu á einn eða annan hátt, kærlega fyrir aðstoðina og telja að mörgum þeirra verði seint full þakkað.   

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir