Fólk í heimildum – heimildir um fólk - Málþing á Skagaströnd 11. október

Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra heldur málþingið Fólk í heimildum – heimildir um fólk laugardaginn 11. október næstkomandi. Samkvæmt fréttatilkynningu munu sex fræðimenn ræða vítt og breitt um leit sagnfræðinga og annarra sem vinna með liðna tíð að „fólki“ fortíðarinnar og þeim aðferðafræðilegu, kennilegu og siðferðilegu álitamálum sem upp geta komið í því starfi.

Þingið verður haldið í bókasafni Halldórs Bjarnasonar í húsakynnum Rannsóknaseturs HÍ á Einbúastíg 2 á Skagaströnd og hefst klukkan 13:00 og stendur til klukkan 17:00. Fundarstjóri er Sigurður Gylfi Magnússon. Boðið verður upp á kaffi og meðlæti í hléi. Aðgangur ókeypis.

Í dagskrá málþingsins segir að heimildir um fortíðina innihalda margvíslegar upplýsingar um fólk og fræðimenn vitja heimildanna gjarnan til þess að kynnast þessu fólki, lífi þeirra, hugsunum og tilfinningum í von um að öðlast innsýn í fortíðina. Þá er spurt hversu raunsanna mynd af fólki í öllum sínum margbreytileika gefa þær heimildir sem varðveist hafa? Og hvaða rétt hafa fræðimenn til þess að rannsaka og skrifa um líf einstaklinga líkt og það birtist í heimildum sem aldrei voru ætlaðar sjónum almennings eða urðu til við rannsókn yfirvalda á viðkvæmum stundum í lífi þess?

„Fræðimenn sem vinna með slíkar heimildir standa þannig frammi fyrir ýmsum álitamálum sem eru í senn aðferðafræðilegs, þekkingarfræðilegs og siðferðilegs eðlis. Þau varða það m.a. hvort og þá hvað hægt sé að vita um fólk fortíðarinnar, hvernig skapa megi merkingarbæra þekkingu um það og hvaða siðferðilegu takmarkanir og ábyrgð hvíli á fræðimönnum sem starfa með heimildir um líf fólks. Málþingið er hugsað sem vettvangur til að ræða þessi álitamál frá ólíkum hliðum og um leið að leggja fram tilgátur, varpa fram nýjum spurningum og verða fyrir innblæstri fyrir áframhaldandi rannsóknir um fólk fortíðarinnar,“ segir í dagskránni.

Dagskráin er eftirfarandi:

Sigurður Gylfi Magnússon - Fulltrúar fólksins! Er þá einhvers staðar að finna?

Fyrirlesturinn fjallar ekki um kjörna fulltrúa fólksins, heldur um spurninguna hvort þeir sem hafa kvatt sér hljóðs einhvers staðar í heimildum geti staðið sem fulltrúar fyrir stærri heild; fjölskyldur, hópa, stéttir, landsvæði, lönd eða jafnvel sjálfa sig. Fyrirlesturinn fjalla um hvort ein eining geti staðið fyrir eitthvað annað en sig sjálfa (e. representativeness).

Sigurður Gylfi Magnússon er dósent í menningarsögu við Háskóla Íslands og höfundur fjölda bóka um sagnfræðileg efni. Má þar nefna bækurnar Menntun, ást og sorg: Einsögurannsókn á íslensku sveitasamfélagi 19. og 20. aldar (1997) og Wasteland with Words: A Social History of Iceland (2010).

Lára Magnúsardóttir - Hver ber andlegar afleiðingar afbrota? Tilurð heimilda í sögulegu samhengi

Lára Magnúsardóttir er doktor í sagnfræði frá Háskóla Íslands. Hún starfar sem forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra. Hún er höfundur bókarinnar Bannfæring og kirkjuvald á Íslandi 1275-1550 (2007) og fjölda greina um sagnfræðileg málefni.

Ólafur Arnar Sveinsson - Rannveig og Torfhildur í Kanada á 19. öld. Vangaveltur um aðferðafræðileg og siðferðisleg vandamál við úrvinnslu sendibréfa

Rannsóknir á sendibréfum krefjast lesturs á texta þar sem gjarnan koma fyrir sjónir persónulegar lýsingar sem aðeins voru ætlaðar viðtakanda bréfanna. Því vakna oft upp siðferðislegar spurningar við úrvinnslu efnisins: Hvað á að gera við þess háttar texta? Á fræðimaðurinn yfir höfuð að vera lesa efni af því tagi og kljást við að túlka tjáninguna? Í erindinu verður fjallað um aðferðafræðilegar takmarkanir fræðimannsins við að fást við sendibréf, sem lúta bæði að lagalegum og siðferðislegum viðhorfum. Tekin verða dæmi úr nánum bréfaskrifum Rannveigar Briem til Torfhildar Hólm í Kanada í lok 19. aldar og þau skoðuð í samhengi við eldri sagnaritun um Íslendinga í Norður-Ameríku og spurningar um sjálfsmyndir einstaklingsins.

Ólafur Arnar Sveinsson er doktorsnemi í sagnfræði við Háskóla Íslands. Rannsóknarsvið hans eru m.a. saga vesturheimsferða og rannsóknir á þverþjóðleika auk notkunar persónulegra heimilda á borð við sendibréf. Eftir hann birtist nýlega greinin „‘Riffillinn er besti vinur hermannsins‘: Átök um sjálfsmyndir íslenskra vesturfara“ (2014).

Vilhelm Vilhelmsson - Stílfært og sett í samhengi: Um sniðmát vitnisburða í réttarheimildum

Réttarheimildir (dómabækur, sáttanefndabækur, fylgiskjöl dómsmála o.s.frv.) eru oft einu heimildirnar sem varðveist hafa þar sem alþýða manna tjáir sig með einhverjum hætti. En hvaða „rödd“ er það sem þar talar? Og hvernig verða slíkir vitnisburðir til? Í fyrirlestrinum verður fjallað um sniðmát vitnisburða í réttarheimildum þar sem margir og ólíkir en samtengdir áhrifaþættir móta tilurð textans. Þá verður rætt um það hvernig fræðimenn geta lesið í slíkan texta.

Vilhelm Vilhelmsson er doktorsnemi í sagnfræði við Háskóla Íslands. Doktorsrannsókn hans fjallar um vald og andóf á Íslandi á tímum vistarbandsins og byggir fyrst og fremst á réttarheimildum úr Húnavatnssýslu. Eftir hann liggja ýmsar greinar um sagnfræðileg efni, síðast greinin „Skin og skuggar mannlífsins: Nokkur orð um andóf, vald og íslenska sagnritun“ (2013).

Erla Hulda Halldórsdóttir - Fortíðin er framandi land

Sendibréf og aðrar persónulegar heimildir hafa löngum verið talin vænleg leið til þess að komast nær fortíðinni, sögunni, og því fólki sem þá lifði, af því þessar heimildir sýndu okkur hið sanna sjálf þess sem skrifaði. Þessum hugmyndum hefur verið kollvarpað því sendibréf veita ekki óheftan aðgang hugsunum eða viðhorfum fólks eða fortíðinni eins og hún „raunverulega var“. Bréf þarf ávallt að lesa og túlka í tengslum við það samhengi sem þau spretta úr. Engu að síður eru bréf, dagbækur og endurminningar hvers konar sá heimildaflokkur sem færir okkur hvað næst fólki fortíðar og hugsunum þeirra og upplifunum. Í fyrirlestrinum verður fjallað um ýmis álitamál sem upp koma þegar unnið er með heimildir af þessu tagi, þá einkum sendibréf. Byggt er á tveggja áratuga reynslu af því að vinna með sendibréf við sagnfræðirannsóknir en þó einkum rannsókn á bréfum og ævi Sigríðar Pálsdóttur (1809–1871) sem skildi eftir sig 250 bréf til bróður síns, skrifuð á 53 ára tímabili. Hvað segja slík bréf okkur um ævi einnar konu? Hvaða mynd er hægt að draga upp af lífi sem lýst er í tilviljanakenndum bréfum sem skrifuð einu sinni á ári eða fimmtán sinnum? Og hverju breytir slík rannsókn um skilning okkar á fortíðinni - skiptir „venjulegur“ einstaklingur einhverju máli í hinni sögulegu framvindu?

Erla Hulda Halldórsdóttir er nýdoktor í sagnfræði við Háskóla Íslands og gestafræðimaður við Institute for Advanced Studies in the Humanities við Edinborgarháskóla. Hún er höfundur fjölda rita um sagnfræðileg efni. Má þar nefna bók hennar Nútímans konur: Menntun kvenna og mótun kyngervis á Íslandi 1850-1903 (2011).

Kristján Mímisson - Ævisöguleg fornleifafræði og fornleifafræði hins ævisögulega

Til langs tíma - og svo er reyndar að miklu leyti enn þann dag í dag - var ævisagan aðeins til umfjöllunar innan fornleifafræðinnar í  sambandi við sögulega eða forsögulega einstaklinga, nefnda eða ónefnda, svo sem Filipus II Makedóníukonung og meinta gröf hans sem fannst árið 1977 eða steinaldarmanninn Ötzi, hvers lík kom fram úr jökulbráð í Alpafjöllum árið 1991. Fyrir rúmum 30 árum var hins vegar þeirri skoðun haldið fram að ævisöguhugtækið ætti ekki aðeins við um mennskra einstaklinga heldur næði það jafnframt til efnismenningarinnar. Hlutir áttu sér þannig ævi líkt og mannfólkið, ævi sem var að mörgu leyti samtvinnuð ævi þess fólks sem hlutina umgekkst. Fornleifafræðin, sem fræðigrein  efnismenningar par excellance (sjá Olsen, 2003), sýndi þessari nýju hugmynd um ævina nokkurn áhuga. En hvernig 'ævi' búa hlutir eiginlega yfir og hvernig tengist hún ævi fólks? Í erindinu verður rýnt í þessar hugmyndir um ævi hluta á gagnrýnan hátt og spurningunni varpað fram hverju þær hafa áorkað. Að hvaða leyti breyttu þessar hugmyndir sýn okkar á eðli hluta og eiga þær eitthvert erindi við fræðigreinar sem hefja aðra heimildaflokka en  efnismenninguna í öndvegi, t.d. sagnfræði?

Kristján Mímisson er doktorsnemi í fornleifafræði við Háskóla Íslands. Hann hefur unnið að fjölda fornleifarannsókna á Íslandi og víðar. Eftir hann liggja mörg rit um söguleg og fornleifafræðileg efni, nú síðast greinin „Singularizing the past: The history and archaeology of the small and ordinary“ (2014), sem hann skrifaði saman með Sigurði Gylfa Magnússyni.

Fleiri fréttir