Fornminjafundur á Grófargili í Skagafirði

Hnífsblað og brot úr snældusnúð. Mynd: mast.is
Hnífsblað og brot úr snældusnúð. Mynd: mast.is

Fornt og áður óþekkt bæjarstæði uppgötvaðist nýlega á bænum Grófargili í Skagafirði þegar unnið var við að taka riðugröf en riðuveiki kom upp á bænum fyrr á árinu. Í bæjarstæðinu fundust fornminjar sem eru frá því vel fyrir árið 980 af gjóskulögum að dæma.

Í frétt á vef Matvælastofnunar kemur fram að eftir að riða greindist á bænum hafi allt fé verið sent í brennslu og annað sem talið var geta borið smit grafið á staðnum. Staðurinn sem Matvælastofnun taldi heppilegastan fyrir riðugröf var nærri gömlum húsarústum sem vitnað var í örnefnaskrá. Ofan á rústunum stóð nautakofi sem þurfti að rífa og setja í riðugröf. Því var haft samband við Minjastofnun sem fór fram á að fornleifafræðingur fylgdist með aðgerðum. Nautakofinn var rifinn án þess að raska rústunum.

Við gröft riðugrafarinnar var fyrst gerður könnunarskurður í varúðarskyni og komu þá í ljós mun eldri fornminjar, forn öskuhaugur, og voru því aðgerðir stöðvaðar og fyrirhuguð riðugröf færð til. Í framhaldi af því tók við fornleifauppgröftur þar sem fjöldi muna fannst, dýrabein og eldsprungnir steinar. Aðgerðum er lokið og verða fornleifarnar færðar til Þjóðminjasafnsins að lokinni skýrslugerð fornleifafræðings. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir