Framúrskarandi frumsýning

Í lok frumsýningar Leikfélags Sauðárkróks á Einn koss enn og ég segi ekki orð við Jónatan. Mynd: Kristín Björg.
Í lok frumsýningar Leikfélags Sauðárkróks á Einn koss enn og ég segi ekki orð við Jónatan. Mynd: Kristín Björg.

Einhvers staðar segir að það þurfi 17 vöðva til að brosa og víst er að umræddir vöðvar fengu allir að sinna hlutverki sínu á frumsýningu Leikfélags Sauðárkróks á sunnudagskvöldið var. Eins og formaður Leikfélagsins bendir réttilega á pistli sínum í leikskránni skilja slíkar sýningar - fjörugir hurðafarsar - ekki endilega eftir mikinn boðskap, annan en þann að allt kemst upp um síðir.

En þarf alltaf að vera boðskapur? Er ekki stundum bara gott að gleyma amstri og áhyggjum hversdagsins og hlæja í góðum félagsskap? Alla vega fannst mér það kærkomið á þessu sunnudagskvöldi í upphafi Sæluviku.

Tóninn var sleginn strax í upphafi þegar flugfreyjurnar þrjár, sem allt snerist um, birtust á sviðinu í upphafi sýningar og fóru yfir öryggisreglur fyrir farþega. Stemningin sem myndaðist í salnum hélst allan tímann og aldrei kom neitt fum eða fát á leikarana sem fóru afar vel með textann sinn og héldu hinum nauðsynlega hraða og snerpu hurðafarsans allan tímann.

Leikgleðin skein úr hverju andliti og það hlýtur að hafa verið skemmtilegur andi í leikhópnum sem taldi að þessu sinni sex leikara og tuttugu manns til viðbótar. Fjóra af leikurunum hafði undirrituð séð á sviði áður, frábærir reynsluboltar þar á ferð og hinar tvær koma sterkar inn. Að öðrum ólöstuðum er ekki hægt annað en að minnast á frammistöðu Elvu Bjarkar Guðmundsdóttur í hlutverki ráðskonunnar Dísu. Mögnuð tilþrif og merkilegt að þrátt fyrir alla sína reynslu með leikfélaginu virkar hún ekki deginum eldri en tvítug í þessu skemmtilega hlutverki. Haukur Skúla fer líka á kostum í hlutverki hins kærulausa kvennabósa Ragga sem er afar „peppaður“ eftir ferð á leik með Tólfunni. Guðbrandur bregst ekki frekar en fyrri daginn og toppar sig með tilþrifum í lokaatriðinu.

Höfundur verksins er undirritaðri að góðu kunnur, eftir að hafa fyrir réttum fimmtán árum farið með hlutverk í Sex í sveit (sem var því ekki sýnt í fyrsta sinn á Íslandi árið 2007, eins og fram kemur í leikskrá. Áður höfðu a.m.k. Leikfélag Hólmavíkur og Borgarleikhúsið sett þetta stykki upp). Persónur eru því nokkuð kunnuglegar, sem og atburðarásin. Þýðing fyrrum nágranna míns, Sigurðar Atlasonar, er lipur og skemmtileg og leikstjóranum, Ingrid Jónsdóttur, tekst vel til að færa verkið að stund og stað. Henni tekst sömuleiðis að kalla fram allt það besta í leikhópnum og leitun að eins fumlausri og vel heppnaðri frumsýningu hjá áhugaleikhópi og þarna var raunin.

Að vanda tekst leikfélaginu vel upp með sviðsmynd. Þar ríkir hæfilegur einfaldleiki og gott samræmi. Búningar eru einnig með ágætum. Tónlistin gerir mikið fyrir sýninguna, og þar fer m.a. Guðbrandur Ægir á flug í gervi flagara og flugstjóra sem er einhvers konar aukapersóna í verkinu. Þar, sem og víðar í sýningunni, er skemmtilegt hvernig leikurinn berst fram í sal og sviðið framlengist alla leið til áhorfenda. Lokaatriðið slær svo skemmtilegan lokatón í sýninguna og þar sem annars staðar sést vel hversu vel æfðir leikarnir eru og samspil þeirra gott.

Það er ástæða til að óska Leikfélagi Sauðárkróks til hamingju með frábæra sýningu og það úthald sem þetta gamalgróna félag hefur til að standa fyrir uppsetningum tvisvar á ári. Magnaður kjarni leikara og aðstoðarfólks ber uppi hverja sýninguna á fætur annarri.

Lesendur vil ég hvetja til að sýna menningarstarfi héraðsins þá virðingu að mæta leiksýningu, sem og aðra viðburði sem boðið er upp á í metnaðarfullri dagskrá héraðshátíðar sem á sér lengri sögu en flestar ef ekki allar sambærilegar hátíðir á landinu. Góða skemmtun!

Kristín Sigurrós Einarsdóttir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir