Gæruhljómsveitir - Rúnar Þóris

Nú er undirbúningurinn fyrir tónlistarhátíðina Gæruna í fullum gangi og miðasala hafin á miði.is. Gæran verður haldin í húsnæði Loðskins/Atlantic Leather á Sauðárkróki um næstu helgi, 14.-16. ágúst nk. Feykir hafði samband við hljómsveitirnar og tónlistarmennina sem koma fram á Gærunni í ár og mun vera með stuttar kynningar á þeim fram að hátíðinni.

Rúnar Þóris verður á meðal þeirra tónlistarmanna sem stíga á stokk á Gærunni í ár.

Hvernig myndir þú lýsa tónlistinni þinni? Tónlistin er mótuð af straumum og stefnum héðan og þaðan og byggir m.a. á reynslu af klassískri tónlist og rokki hvers konar. Eins og lífið gerir sjálft þá geyma lögin flóru tilfinninga, frá þvi dökka og dimma til hins ljósa og bjarta. Í textunum tvinnast saman hugleiðingar um lífið, náttúruna og ástina og þá vá sem steðjar að hverju þeirra.

Hefur þú lent í skemmtilegum uppákomum á tónleikum hjá þér? Allavega uppákomum.

Hvað er á döfinni hjá þér? Að fylgja enn betur eftir útgáfu síðustu plötunnar SÉRHVER VÁ spila sem víðast á tónleikum og tónlistarhátíðum, m.a. Gærunni og Iceland Airwaves. Síðan er bara að stefna að frekari tónsmíðum og textagerð fyrir næstu plötu.

Hvernig leggst það í þig að spila á Gærunni 2014? Einstaklega vel, Gæran er glæsilegt framtak til tónlistarviðburða hér á landi og því bara tilhlökkun að taka þátt.

Fleiri fréttir