Gullna mjólkin- ljúffengur lífselixír!
Fröken Fabjúlöss hefur alltaf verið þeirrar skoðunar að ekki sé sá kvilli til í mannslíkamanum sem náttúran hefur ekki svar við, hvort sem svarið er fundið eður ei. Þessvegna grípur um sig ákveðinn spenningur innan herbúða Fabjúlössmans þegar nýjar óhefðbundnar og náttúrulegar leiðir til betra lífs eru kynntar til leiks.
Svo var það seinasta vetur að Frökenin var að vafra um netheima og datt niður á uppskrift af Gullnu mjólkinni, þar sem grunnuppistaðan er hið undursniðuga krydd Turmeric. Samviskusamlega var þessi uppskrift prentuð út, smellt ofan í veski og svo fékk hún bara smám saman að kuðlast, beyglast og gleymast í því svartholi sem hið almenna kvenmannsveski er.
En um daginn urðu straumhvörf í sinni Fröken Fabjúlösar, heilsa fór að verða henni ofar í huga og fór hún að kanna ýmis heilsuráð og datt þá niður á þessa sömu uppskrift af Gullnu Mjólkinni. Í þetta skipti ákvað Frökenin að vera sniðug og dúndra sér bara í það að útbúa undirstöðuna þar sem allt hráefni var innan handar!
Bókstaflega 10 mínútum eftir að Frökenin byrjaði að útbúa undirstöðu"deigið" sat hún við eldhúsborðið súpandi á þessari gullnu dásemd! Einfaldara getur þetta bara ekki orðið! Uppskriftin, bæði af grunn"deiginu" og svo drykknum sjálfum er:
Deigið-Leirinn-Undirstaðan:
1/4 bolli Turmeric (Frökenin notaði nú bara 1 glas af Turmeric frá Prima, sem er svona sirka 1/2 bolli)
1/2 tsk svartur pipar, mulinn (1 tsk á móti 1 glasi af Turmeric)
1/2 bolli vatn
Leiðbeiningar:
Hrúga öllu saman í lítinn pott. Hræra vel allann tímann yfir meðalhita, þangað til blandan er orðin eins og þykkt deig eða leir. Frökeninni telst til að það hafi tekið innan við 4 mínútur, þannig að verið ekkert að rúnta frá pottinum. Taka af hellunni og setja í krukku og inn í ísskáp. Leirinn ætti að hafa geymsluþol upp á sirka mánuð!
Hin undursamlega og dásamlega Gyllta Mjólk:
1 bolli mjólk (kúa, geita, möndlu, rís, kókos- júneimitt sko!)
1/4 tsk eða meira af Turmeric leirnum
1 tsk kókosolía ef áhugi er fyrir, en kókosolían er mörgum kostum gædd og í þessu tilfelli hentar hún einstaklega vel til að smyrja liði
Hunang eftir smekk
Leiðbeiningar:
Allt nema hunang sett saman í pott og hrært nánast upp að suðu, en ekki samt láta sjóða. Bæta hunanginu útí- hella í bolla- NJÓTA!
Frökenin er búin að fá sér bolla af þessari dásemd á hverju kvöldi í tvær vikur núna og hefur meira að segja náð að hrífa betri helminginn með sér í sötrið, og er hann ekkert minna hrifinn af þessari dásemd! Í höfuðstöðvum Fabjúlössmans er þetta hrært út í hrís-kókosmjólk, en uppskriftin sem Frökenin las fyrst talaði eingöngu um að blanda þetta í möndlumjólk, sem var svo ekki til í búðinni þannig að hrísmjólkin varð fyrir valinu. Frökenin skildi bara ekki hversvegna venjuleg mjólk væri ekki nógu góð og fór að lesa sér til, og uppgötvaði þá að hún er alveg eins góð.. En þá var kókosmjólkin búin að hasla sér völl með sínum bragðaukandi ánægjulegheitum, og ekki svo auðvelt að snúa baki við þeim!
Svo er hægt að fara í það að leika sér aðeins með útfærslur á mjólkinni sjálfri. Heyrst hefur í heilsuhorni Fabjúlössmans að fólk hafi tildæmis bragðbætt drykkinn með kanil, og svo er Frökenin sjálf með það á teikniborðinu að prufa að blanda engifer út í drykkinn og sjá hverju það skilar!
Hér má sjá bolla af elixírnum framleiddann af Fabjúlöss sjálfri!
En af hverju Turmeric spyrjið þið, og kannski ekki nema von. Leyfið Frökeninni nú að útlista nokkur af þeim fjölmörgu atriðum sem neysla Turmeric hefur í för með sér:
- Bólgu og verkjaeyðandi
- Vinnur á kvefbakteríum og er einstaklega gott hóstasaft
- Er nokkurskonar detox á blóðið og lækkar blóðþrýsting
- Hreinsar lifrina
- Eykur og auðveldar meltingu
- Eykur orku
- Passar upp á kólestrólið
- Er gott fyrir minni og heilastarfsemi
- Kemur í veg fyrir, eða dregur úr einkennum Alzheimer
- Gott fyrir húðina og hina ýmsu húðkvilla
- Hefur styrkjandi áhrif á hjartað, og þessvegna vinnur það á móti myndun hjartasjúkdóma og kvilla ýmisskonar
- Gott við liðagigt
- Turmeric inniheldur efni sem hamla krabbameinsfrumum að myndast
- Hjálpar til við þyngdarstjórnun
Svona gæti Frökenin haldið áfram endalaust, en þetta ætti að gefa lesendum einhverja hugmynd um hversvegna Gullna Mjólkin er góð! Ástæða þess að pipar er í uppskriftinni er að rannsóknir hafa sýnt að piparinn allt að þúsundfaldi áhrif Turmerics, sem er náttúrulega ekki verra!!
Eitt skal þó hafa í huga þegar mjólkin er sötruð að staðaldri! Turmeric er blóðþynnandi, þannig að ef téður sötrari er á leið í aðgerð einhverskonar, þá er gott að gefa drykknum pásu seinustu 2 vikur fyrir aðgerð!!
Frökenin vonar að sem flestir prufi Gullnu Mjólkina og njóti vel!