Háholt hagkvæmur kostur
Mikil hagkvæmni fólgin í því að samnýta húsakost og mannafla í Háholti og reka þar saman hefðbundna meðferð og afplánun að sögn Ara Jóhanns Sigurðssonar, forstöðumanns Háholts, í fréttatilkynningu sem hann sendi frá sér í dag. „Við megum ekki gleyma því að það er sama hvar svona heimili er staðsett það kostar alltaf talsverða fjármuni. Ný stofnun, þ.e. nýtt hús og nýtt starfsfólk myndi einnig kosta. Hér er verið að byggja undir og styrkja það sem fyrir er með samnýtingu og sparnað að leiðarljósi.“
Í fréttatilkynningunni bendir Ari á að barnasáttmálinn kveður á um að börn og ungmenni á aldrinum 15 til 18 ára eiga að afplána í meðferð. Barnasáttmáli Sameinuðu Þjóðanna var lögfestur á Alþingi í mars 2012 en þá hófst strax vinna við að undirbúa þær breytingar sem fyrir lágu að ráðast þyrfti í. Hann segir að Barnaverndarstofa hafi strax lagt til að afplánun í meðferð skyldi fara fram í Háholti.
„Á seinni stigum málsins komu svo fram hugmyndir um stofnun sértækrar stofnunar sem staðsett yrði á höfuðborgarsvæðinu. Þessum hugmyndum var komið á framfæri við þáverandi velferðarráðherra Guðbjart Hannesson, sem tók vel í hugmyndirnar en frekari vinnu við að koma þeim í framkvæmd var frestað vegna fjárskorts,“ útskýrir Ari.
Mikil reynsla og þekking áunnist í gegnum árin
Meðferðarstarf á vegum Barnaverndarstofu í Skagafirði hófst árið 1993 en Háholt var tekið í notkun 1999. Háholt er eini staðurinn og meðferðarúrræðið á landinu sem sérstaklega er byggt fyrir starfsemi af því tagi sem þar fer fram, utan Stuðla.
„Nýting Háholts hefur á starfstíma þess verið afar viðunandi lengst af en á árinu 2013 dró verulega úr umsóknum. Að sama skapi var dregið úr umfangi og fjárframlög til heimilisins skert um 25%. Það sem af er árinu 2014 er nýtingarhlutfall um 70%,“ segir Ari.
Í Háholt koma börn og unglingar með misalvarlegan vanda. Burt séð frá því segir Ari markmiðið ávallt hafa verið að veita sem besta þjónustu, meðferð og umönnun.
„Á Háholti hefur áunnist mikil reynsla og þekking, auk þess sem starfsmenn hafa tileinkað sér nýjar aðferðir. Menntun starfsfólks er breið, hér vinna kennarar, áfengis- og vímuefnaráðgjafar, iðnaðarmenn og tamningamenn. Sálmeðferðarfræðingur starfar við heimilið auk þess sem Háholt hefur góðan aðgang að geðlæknum og öðrum sérhæfðum fagaðilum ef þörf er á.“
Á Háholti hafa börn og unglingar haft tækifæri til að stunda nám, stunda vinnu, taka bílpróf, kynnast heilbrigðum tómstundum, stunda íþróttir og líkamsrækt. Læra að eiga góð og uppbyggileg samskipti og koma skipulagi á líf sitt og fara eftir fyrirfram ákveðinni dagskrá.