Heklað, gimbað og slegið í vef
Heimilisiðnaðarsafnið mun að venju taka þátt í íslenska Safnadeginum. Sérstök dagskrá verður í safninu frá kl. 14:00 á sunnudaginn, 13. júlí, þar sem ýmsar handverksaðferðir verða sýndar og gestum gefst kostur á að spreyta sig.
Sýnt verður hvernig tekið var ofan af, kembt, spunnið og prjónað. Einnig verður sýndur margskonar útsaumur, heklað, gimbað og slegið í vef. Gefst gestum kostur á að spreyta sig á viðkomandi vinnubrögðum.
Sérstök athygli er vakin á sumarsýningu safnsins „Sporin mín“ eftir Þórdísi Jónsdóttur.
Aðgangseyrir að safninu er kr. 900 en 700 fyrir eldri borgara og frítt fyrir 16 ára og yngri. Innifalið í aðgangseyri er kaffi ásamt smakki af bóndakökunum góðu sem algengar voru á kaffiborðum landsmanna hér áður fyrr, eins og segir í fréttatilkynningu frá safninu.