Hljóðið í sveitarstjórnarmönnum að þyngjast gagnvart ríkisvaldinu

Fjármálaráðstefna sveitarfélaga var sett á Hilton Nordica í Reykjavík í gær. Við setningu ráðstefnunnar fór Halldór Halldórsson, formaður Sambands sveitarfélaga, yfir nokkur af helstu málum sem sveitarfélögin glíma við um þessar mundir.  Þess má geta að hægt er að fylgjast með beinni útsendingu frá A-hluta fjármálaráðstefnunnar sem hófst nú fyrir stundu, frá kl. 9-12.

Halldór minnti meðal annars á þá þversögn sem sveitarfélögin standa frammi fyrir sem er krafan um að minnka hið opinbera kerfi um leið og þjónustuþörfin eykst til dæmis vegna fjölgunar aldraðra. Hann benti á fyrirliggjandi frumvarp til laga um opinber fjármál sem gerir ráð fyrir að gerð verði fimm ára fjármálaáætlun fyrir ríki og sveitarfélög og sagðist binda vonir við að það leiði til faglegra samskipta við stjórnun opinberra fjármála.

Halldór sagði jafnframt að því miður væri hljóðið í sveitarstjórnarmönnum að þyngjast gagnvart ríkisvaldinu vegna tregðu þess til samninga um verkefni eins og sjúkraflutninga, ákveðin staðbundin verkefni í málefnum aldraðra og heilsugæslunnar svo dæmi séu tekin.

 Stækkun sveitarfélaga raunhæfasta færsla opinberra starfa

Halldór gerði launamál einnig að umtalsefni og benti á að ríki og sveitarfélög geta bætt kaupmátt með lækkun skatta. Erfitt verði hins vegar að eiga við slíkt í góðri samvinnu aðila, a.m.k. gagnvart ríkinu, þegar forsvarsmenn ASÍ neiti að ræða við fulltrúa þess. „Ég segi nú bara; hættið þessari vitleysu og ræðið saman eins og þroskað fólk,“ sagði Halldór í ræðu sinni.

Hann gerði einnig að umtalsefni flutning Fiskistofu og sagði að Samband sveitarfélaga styddi eflingu opinberra starfa í héraði og dreifingu opinberra starfa og sagðist sjálfur hafa unnið að færslum slíkra verkefna í gegnum tíðina. Hins vegar sagði hann að sú aðferð að rífa upp störf með rótum væri að hans mati ekki árangursrík fyrir heildina.

„Farsælla væri að vinna að færslu starfa í áföngum eða þegar nýjar stofnanir sem geta verið staðsettar hvar sem er þjónustulega séð eða eiga erindi við ákveðinn landshluta. Raunhæfasta færsla opinberra starfa og sú sem heldur störfum best úti á landsbyggðunum sé stækkun sveitarfélaga, efling sveitarstjórnarstigsins og fjölgun verkefna sveitarfélaga,“ sagði Halldór.

Fleiri fréttir