Húnavaka um næstu helgi

Húnavaka, fjölskylduskemmtun Austur-Húnvetninga, verður haldin dagana 17.-20. júlí næstkomandi. Húnvetningar hafa áratugum saman haldið Húnavöku en hún var hér á árum áður haldin á útmánuðum og því tengd árstíðaskiptunum, eins og segir í frétt á vefnum Húnahorninu í dag.

Húnavakan, sem þá stóð yfir í viku, ávann sér fastan sess í hugum Húnvetninga og annarra sem mjög vel heppnuð hátíð og margir gestir úr nærliggjandi héruðum komu til að njóta hennar með heimamönnum.

Dansleikir voru mörg kvöld vikunnar, ásamt leiksýningum og allskonar uppákomum. Sjónleikir, kvikmyndasýningar, skemmtiþættir, hagyrðingakvöld, myndlistasýningar, mælskukeppni, spurningaþættir og fleira gladdi húnvetnsk hjörtu hér á árum áður. Mikill metnaður var lagður í viðburðina og hafði undirbúningur fyrir suma viðburði staðið yfir allan veturinn. Segja má að Húnavakan hafi verið menningaruppskeruhátíð heimamanna þar sem veturinn var kvaddur og sumrinu fagnað.

En tímarnir breytast og mennirnir með. Húnavaka eins og hún var hér á árum áður varð barn síns tíma og með tilkomu annarrar afþreyingar eins og sjónvarps, myndbandstækja og tölva og aukins framboðs af skemmtunum og viðburðum sem haldnir eru allt árið um kring lagðist Húnavakan af um tíma. En sem betur fer tókst að koma henni aftur af stað fyrir nokkrum árum síðan, nú á öðrum tíma og í öðrum búningi, í takt við nýja tíma.

Nú styttist í enn eina Húnavökuna en á morgun verður Húnavaka 2014 formlega sett. Dagskráin er glæsileg og ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi. Rætt er við skipuleggjendur hátíðarinnar, þau Eystein Pétur og Kristínu Ingibjörgu Lárusbörn í 27. tbl Feykis sem kemur út á morgun.

Fleiri fréttir