Knattspyrnan í pásu til og með 13. ágúst hið minnsta

Í gær varð ljóst að Knattspyrnusamband Íslands fékk ekki undanþágu frá Heilbrigðisráðuneytinu til að keppni á Íslandsmótinu í knattspyrnu mætti hefjast á ný. Því hefur öllum leikjum í meistaraflokki, 2. og 3. flokki verið frestað til og með 13. ágúst nk. en þá ætti að vera komið í ljós hvert framhaldið verður í fótboltanum. 

Í frétt á heimasíðu KSÍ sagði í gær:„KSÍ hefur borist svar frá Heilbrigðisráðuneytinu vegna beiðni um undanþágu frá nándartakmörkunum og sótthreinsun búnaðar í æfingum og keppni í knattspyrnu. Þrátt fyrir umfangsmiklar tillögur að aðgerðum hefur undanþágubeiðninni verið hafnað og því hefur mótanefnd KSÍ ákveðið að fresta öllum leikjum í meistaraflokkum og í 2. og 3. flokki karla og kvenna til og með 13. ágúst.  ...  Þar sem takmarkanir heilbrigðisyfirvalda ná eingöngu til þeirra sem fæddir eru 2004 og fyrr verður leikjum í 4. og 5. flokki karla og kvenna ekki frestað. Foreldrar og aðrir aðstandendur leikmanna í þessum flokkum eru hvattir til að gæta ítrustu varkárni í öllum samskiptum og forðast að safnast saman í tengslum við æfingar og leiki þessara flokka.“ Sjá nánar >

Jákvætt svo lengi sem pásan verður ekki of löng

Feykir hafði samband við Jón Stefán Jónsson í þjálfaradúett kvennaliðs Tindastóls fyrr í vikunni og spurði hvernig æfingar gengju fyrir sig hjá liði Tindastóls. „Við höfum æft snertilaust og með öllum helstu sóttvarnarráðstofunum. Það gengur bara mjog vel og við nýtum timann vel,“ sagði Jónsi.

Setur COVID-pásan strik í reikninginn hjá liði Tindastóls? „Covid pásan er eiginlega jákvæð fyrir okkur því hún gefur lykilmönnum eins og Jackie og Aldísi tíma til að jafna sig [af meiðslum]. Þær hefðu sennilega ellegar misst af leiknum við ÍA. Svo við erum bara jákvæð fyrir þessu svo lengi sem pásan verður ekki of löng!“ 

Keppni í Lengjudeild kvenna er ekki hálfnuð og ljóst að ef pásan dregst á langinn er jafnvel óvíst hvort unnt verður að ljúka mótinu. Þau eru augljóslega mörg ef-in á þessum tímapunkti. 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir