Læknisaðgerð í Stapa 1891 - Byggðasögumoli

Jón Þorvaldsson hinn einfætti. Mynd úr Byggðasögu Skagafjarðar.
Jón Þorvaldsson hinn einfætti. Mynd úr Byggðasögu Skagafjarðar.

Jón Þorvaldsson var bóndasonur frá Stapa, fæddur 1857, tók þar við búi 1883 eftir Kristján bróður sinn látinn og bjó þar með hléum til ársins 1900. Hann giftist í annað sinn 1890 og var þá þegar farinn að kenna meinsemda í fæti sem snemmsumars 1891 hafði grafið svo um sig að honum var vart hugað líf, vinstri fóturinn allur orðinn holgrafinn upp á mitt læri, taldir vera berklar sem herjað höfðu miskunnarlaust í Héraðsdal og e.t.v. einnig lagt fyrri konu Jóns í gröfina.

Sóknarpresturinn, séra Jón Ó. Magnússon á Mælifelli, fór þá vestur að Eiðsstöðum í Blöndudal og hitti þar læknanema sem nýlokið hafði fyrri hluta læknaprófs í Kaupmannahöfn, Guðmund Hannesson, og spurði hvort hann vildi aðstoða héraðslækninn, Árna Jónsson, við að taka fótinn af Jóni í Stapa. Fór Guðmundur með séra Jóni í Mælifell og gisti þar. Ekki kveið hann aðgerðinni því hann átti einungis að vera til aðstoðar héraðslækninum en hugleiddi þó einkum sótthreinsiaðgerðir og kom í hug að notast mætti við dýjamosa. Fór hann snemma morguns upp í fjall ofan við Mælifell og fann þar mosa, skar burtu rótarhlutann og þvoði síðan vandlega og lagði í sótthreinsilög. Á tilteknum tíma fóru svo prestur og læknanemi áleiðis í Stapa með mosann og álitlegan skurðarhníf og hittu þar fyrir Árna lækni og sjúklinginn.

Bæjarhurðin var nú tekin af lömum og gerð að skurðarborði. Jón prestur annaðist svæfinguna en þegar kom að aðgerðinni spurði Árni læknir Guðmund hvort hann vildi heldur gera skurðinn eða aðstoða. Hann kvaðst heldur vilja gera skurðinn ef Árna stæði á sama. Sögn er að notuð hafi verið grindasög í eigu Jóns bónda til að hluta í sundur lærbeinið og eftir að fóturinn hafði verið numinn af tók Guðmundur í Stapa, bróðir Jóns, stúfinn, vafði hvítu utan um og reið síðan úr hlaði áleiðis út í Reykjakirkjugarð.

Aðgerðin tókst með ólíkindum vel miðað við hinar frumstæðu aðstæður og þá sóttkveikjuvarúð sem var unnt að beita. Vilmundur Jónsson landlæknir telur að þetta hafi verið önnur ,,smitgátaraðgerð“ á Íslandi en sú fyrsta var einungis fáum dögum fyrr, 6. júní, þar sem danskur skipslæknir gerði holskurð við sulli á 7 ára dreng og tókst að lækna hann að fullu.

Jón Þorvaldsson komst til bata því ekki hljóp ígerð í sárið. Gekk hann við heimasmíðaðan tréfót síðan og lifði enn í 50 ár, lést 11. janúar 1941, jarðsettur á Reykjum og var þá loks allur kominn til moldar í Reykjakirkjugarði.

Byggðasaga Skagafjarðar 3. bindi, bls. 170.

Áður birst í 11. tbl. Feykis 2019

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir