Líkamsárás og umferðareftirlit á meðal verkefna lögreglunnar á Blönduósi um helgina

Það var annasamt hjá lögreglunni á Blönduósi um helgina. Hæst ber að nefna líkamsárás sem átti sér stað á Hvammstanga á laugardag en maðurinn sem fyrir árásinni varð er á fertugsaldri og liggur lífshættulega slasaður á gjörgæslu með alvarlega áverka á höfði. Honum er haldið sofandi í öndunarvél.

Lögreglan á Blönduósi segir málið vera í rannsókn, verið er að raða öllum brotum málsins saman og er rannsóknin í höndum rannsóknarlögreglunnar á Akureyri. Fjórir menn voru handteknir vegna málsins en að sögn lögreglunnar á Akureyri, sem fór fram á gæsluvarðhald yfir mönnunum í gærkvöldi,  er beðið ákvörðunar Héraðsdóms Norðurlands varðandi gæsluvarðhaldskröfuna og verður sú ákvörðun tekin í dag.

Maður féll af hestbaki í Vatnsdal í Húnavatnshreppi í gær og var fluttur á Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri til skoðunar. Að sögn lögreglunnar slasaðist hann ekki mikið við byltuna, er rifbeinsbrotinn og aumur í skrokknum.

Þá var mikið að gera í umferðareftirliti þegar straumur bíla lagði leið sína um sýsluna vegna Bíladaga á Akureyri. „Það var töluvert um að bílar ækju hratt, sérstaklega á fimmtudag og föstudag, en þetta gekk slysalaust fyrir sig,“ sagði talsmaður lögreglunnar.

Í morgunsárið varð bílvelta í Hrútafirði, klukkan 4, en blessunarlega urðu engin slys á fólki. Talið er að ökumaðurinn hafi dormað, eins og vill gerast þegar fólk er á ferðinni á nóttunni.

Fleiri fréttir