Líklegast að mengun komi frá lekum eldsneytistanki N1 á Hofsósi
Á fundi Heilbrigðisnefndar Norðurlands í síðustu viku voru málefni bensínstöðvar N1 á Hofsósi til umræðu en þar kom fram að sýnatökur, sem teknar hafa verið í íbúðarhúsinu að Suðurgötu 6 á Hofsósi, gefi skýrt til kynna að yfirgnæfandi líkur séu á að mengun frá lekum eldsneytistanki N1 handan götunnar hafi borist inn í húsið.
Í fundargerð kemur fram að Heilbrigðisnefnd vænti þess að N1 bæti úr tjóni og beri kostnað Heilbrigðisnefndar sem hlotist hefur vegna málsins. Heilbrigðiseftirlitið hefur farið fram á að fá hreinsunaráætlun á mengun á svæðinu, fyrir 25. mars nk.
Heilbrigðisnefnd fagnar þeim úrbótum sem félagið boðar á mengunarvörnum stöðvarinnar og telur þær til mikilla bóta sem fela í sér að setja upp olíuskilju og koma fyrir nýjum tvöföldum tönkum.
Tengdar fréttir:
Olíutankur á Hofsósi stóðst ekki lekapróf
Starfsleyfi bensínstöðvarinnar á Hofsósi rann út 1. janúar sl.
Umfang mengunar vegna bensínleka skoðað á Hofsósi