Ljósfari með Sigvalda í framlínunni tók þátt í Músíktilraunum

Úrslitakvöld Músíktilrauna fór fram síðastliðið laugardagskvöld í Norðurljósasal Hörpu. Meðal þeirra sem náðu í úrslit var hljómsveitin Ljósfari en þar í fararbroddi var Sigvaldi Helgi Gunnarsson frá Löngumýri í Skagafirði. Það er auðvitað löngu vitað að drengurinn getur sungið flestum betur og fór það svo að Ljósfari, sem spilaði laglegt melódískt popprokk, hafnaði í þriðja sæti.
Á heimasíðu Músíktilrauna kemur fram að upprunalega var Ljósfari „...hugarfóstur gítarleikarans Árna [Svavars Johnsen] og bassaleikarans Snorra [Arnar Arnarssonar]. Síðar gekk söngvarinn Sigvaldi til liðs við þá og Benjamín [Gísli Einarsson] sem skaffaði nauðsynlega hljómborðsmottur. Síðasta hráefnið var svo pumpandi hjarta sveitarinnar, Kristófer [Nökkvi Sigurðsson] trommari. Saman mynda þessir menn hljómsveitina Ljósfari og vinnur hún að eigin sögn markvisst að því að semja skemmtileg lög með dansandi hryn og grípandi laglínum.“
Það voru tíu sveitir sem tóku þátt í úrslitakvöldi Músíktilrauna eftir að hafa verið valin áfram í undankeppninni. Margar ágætar grúppur hafa fetað sín fyrstu skref á leiðinni að frægð og frama með þátttöku í Músíktilraunum, sem hóf göngu sína 1982, og hér fyrir norðan má til dæmis nefna til sögunnar Herramenn frá Sauðárkróki og Jójó frá Skagaströnd sem börðust um sigurinn 1988. Jójó fór með sigur af hólmi en báðar sveitir áttu góða tíma á vinsældarlista Rásar 2 í kjölfarið. Jójó með lagið um stælta stráka á meðan Herramenn sungu Nótt með þér og hið klassíska Í útvarpi.
Þá má geta þess að ritstjóri Feykis, Palli Friðriks, var í hljómsveitinni Medium sem tók þátt í fyrstu Músíktilraununum árið 1982. Með Palla í Medium voru Himmi Valla sem nú býr í Rússlandi, Siggi heitinn Ásbjörns og Óskar Páll Sveinsson sem hefur marga fjöruna sopið í tónlistargeiranum og er að sjálfsögðu best þekktur fyrir að koma Íslandi í annað sæti Júróvisjón, ásamt sínum hópi, með laginu Is It True.
Núna síðari árin gerðu Funk That Shit (þriðja sæti 2012) og síðast en ekki síst Bróðir svartúlfs góða hluti. Bróðirinn, með Helga Sæmund og Arnar Frey (Úlfur úlfur) innan sinna raða, náðu að sigra keppnina með sínu rapp-rokki vorið 2009.
Sigurvegarar Músíktilraun 2018 reyndist tríóið Ateria, eftir niðurstöðu dómnefndar og símakosningu. Hljómsveitina skipa Ása (17), Eir (16) og Fönn (13) og þær hafa allar stundað tónlistarnám og tekið þátt í Stelpur rokka. Ása og Eir eru systur og Fönn er frænka þeirra. Hljómsveitin var stofnuð haustið 2017 og æfir í bílskúr í Vesturbæ Reykjavík. Þær léku frekar drungalega gothkennda tónlist og voru sannarlega með sinn einstaka stíl, þrátt fyrir ungan aldur. Hljómsveitin Mókrókar varð í öðru sæti og Ljósfari sem fyrr segir í því þriðja en hljómsveit kvöldsins, sem valin var í símakosningu, var Karma Brigade.
Hér að neðan eru hlekkir á Tón-lystir nokkurra þeirra tónlistarmanna sem tekið hafa þátt í Músíktilraunum:
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.