„Málið var misráðið, vanreifað og órannsakað“ - Sveinn Margeirsson sýknaður í „örslátrunarmálinu“

Sveinn Margeirsson í Héraðsdóms Norðurlands vestra er mál Lögreglustjórans á Norðurlandi vestra gegn honum var tekið fyrir í nóvember í fyrra. Mynd: PF.
Sveinn Margeirsson í Héraðsdóms Norðurlands vestra er mál Lögreglustjórans á Norðurlandi vestra gegn honum var tekið fyrir í nóvember í fyrra. Mynd: PF.

Sveinn Margeirsson, fv. forstjóri MATÍS og núverandi sveitarstjóri Skútustaðahrepps, hefur verið sýknaður í „örslátrunarmálinu“ svokallaða en dómur var kveðinn upp í Héraðsdómi Norðurlands vestra þann 20. október sl. Á Facebook-síðu sinni rifjar Sveinn upp helstu atriði sem hann telur skipta máli varðandi þetta óvenjulega mál, „sem varpar á margan hátt ljósi á úreltan hugsunarhátt eftirlitskerfisins á Íslandi og þá samtryggingu sem felst í greiðslum stórra „eftirlitsþega“ til eftirlitsstofnana.“

„Örslátrunarmálið hefur verið afdrifa- og lærdómsríkt fyrir mig. Markmiðið með því hefur ávallt verið skýrt í mínum huga: Jákvæð byggðaþróun um allt land í kjölfar aukinnar verðmætasköpunar bænda, betri valkostir fyrir neytendur, sókn í umhverfis- og loftslagsmálum og heilbrigt samkeppnisumhverfi. Til að ná þessum markmiðum þarf yfirvinna margar hindranir. Í því hindrunarhlaupi mun reyna á getu og ábyrgð framkvæmdavaldsins og stjórnenda eftirlitsstofnana. Drifkraftur breytinga mun þó ávallt verða hjá bændum sjálfum. Þegar kemur að þeim krafti þarf ekki að hafa áhyggjur, fái bændur eðlilegt frelsi til athafna, og er í því ljósi ánægjulegt að sjá tugi bænda taka þátt í tilraunaverkefni Landbúnaðarráðherra um heimaslátrun haustið 2020.

Aðgerðahópur bænda á lof skilið fyrir frumkvæði sitt varðandi tilraunaverkefnið sem og Landbúnaðarráðherra fyrir þann pólitíska kjark sem sýndur hefur verið með framkvæmd þess haustið 2020. Rökrétt framhald verkefnisins er að ráðherra taki fram fyrir hendur lögspekinga Matvælastofnunar og heimili sauðfjárbændum með útgáfu reglugerðar að slátra eigin lömbum og selja afurðir af þeim beint til neytenda. Bændum er treystandi til að slátra til eigin neyslu, hvers vegna ekki til beinnar sölu?

Það er með öllu óásættanlegt að eftirlitsstofnanir vegi að frumkvöðlum í landbúnaði með kærum til lögreglu, áður en samtal er tekið um skynsamlegt jafnvægi frumkvöðlastarfsemi og eftirlits. Kostnaður minni matvælaframleiðenda við eftirlit er sömuleiðis óásættanlegur, ekki hvað síst í ljósi þeirra efnahagsþrenginga sem íslenskt samfélag stendur nú frammi fyrir. Ef við Íslendingar sjáum fyrir okkur raunverulegt fæðuöryggi, í stað þess að reiða okkur á innfluttar matvörur og fóður, er kominn tími til róttækra breytinga varðandi eftirlit í matvælaiðnaði. Þær breytingar þurfa að fela í sér mun meiri dreifstýringu og samtal milli eftirlitsstofnana og fjölbreyttra matvælaframleiðenda.

Það er von mín að í framtíðinni þurfi aðrir ekki að ganga í gegnum sambærilega rökleysu og örslátrunarmálið hefur verið. Ég vil þakka öllum þeim sem hafa stutt við bakið á mér í þessu sérkennilega máli, sem hefur reynt á margt, en verður vonandi á endanum til þess að skriður komist á nauðsynlegar breytingar til að markmiðunum megi ná.

Ég hef ávallt tekið ábyrgð mína sem stjórnandi alvarlega. Það var á mína ábyrgð sem forstjóra að Matís ynni að markmiðum sínum um aukna verðmætasköpun í landbúnaði. Að sama skapi er það á ábyrgð stjórnenda Matvælastofnunar að stuðla að því að markmið Matvælalaganna (93/1995) um gæði, öryggi og heilnæmi nái fram að ganga. Neikvæð fjölmiðlaumfjöllun Matvælastofnunar og kærur á hendur frumkvöðla á sama tíma og blinda auganu er snúið að skertum rekjanleika sláturleyfishafa er vond leið til þess að ná þeim markmiðum.

Ég vil minna á lokaorð Friðriks Árna Friðrikssonar Hirst, lögmanns míns í málinu, við aðalmeðferð í Héraðsdómi Norðurlands vestra. Er það von mín að starfsmenn þeirra stofnana sem rannsaka munu sambærileg „saka“mál í framtíðinni hafi þau í huga áður en þeir láta etja sér á foraðið: „Málið var misráðið, vanreifað og órannsakað,“ skrifar Sveinn á Facebook-síðu sína.

Þar birtir hann einnig greinargerð sinni í málinu, en einnig fylgir fylgibréf hans með umsókn um starf forstjóra Matvælastofnunar vorið 2020, sem innihélt tillögur um breytta nálgun stofnunarinnar. Að lokum fylgir dómsúrskurður Héraðsdóms Norðurlands vestra frá 20.10.2020, sem og tímalína helstu viðburða.

HÉR má sjá dóminn í heild.

Tengdar fréttir:

Fjöldi mætti í Héraðsdóm Norðurlands vestra í morgun til að sýna Sveini Margeirssyni stuðning
Sala á heimaslátruðu lambakjöti kærð til lögreglu
Innköllun á heimaslátruðu lambakjöti

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir