Ráðast þarf í dýpkunarframkvæmdir við Hvammstangahöfn
Á fundi sveitarstjórnar Húnaþings vestra sem haldinn var í gær, fimmtudaginn 14. maí, var tekin til umfjöllunar og tekið undir bókun byggðaráðs Húnaþings vestra frá 20. apríl síðastliðnum varðandi dýpkunarframkvæmdir í Hvammstangahöfn. Í fundargerð byggðarráðs kemur fram að slíkar framkvæmdir teljist nauðsynlegar í ljósi þes að áburðarskip tók niðri í hafnarmynninu í aprílmánuði.
Í bókun sveitarstjórnar kemur fram að hún telji afar mikilvægt að farið verði í dýpkunarframkvæmdir á árinu 2020 þar sem ljóst þyki að sandur heldur áfram að safnast í höfnina sem geti mögulega haft þær afleiðingar að hún verði ófær fyrir stærri skip næsta vor. Óskar sveitarstjórn eftir því við Vegagerð ríkisins að hún taki þátt í kostnaði við framkvæmdina vegna mikilvægis hafnarinnar fyrir flutninga inn á svæðið. Sveitarstjórn bendir á að reynslan sýni að þörf sé á að dýpka höfnina á tveggja til þriggja ára fresti. Því leggur sveitarstjórn áherslu á að dýpkun hafnarinnar komist inn á samgönguáætlun sem og eðlilegt viðhald hafnarmannvirkja á Hvammstanga.