Ræða á gamlársdag 2011 í Glaumbæ
Upp er runninn síðasti dagur ársins 2011 og eftir skamma stund fögnum við nýju ári. Um leið og við þökkum fyrir samferð og samskipti öll á árinu sem er að líða biðjum við um farsæld og blessun á nýju ári.
Og ekki veitir af að biðja um meiri samheldni og sáttarhug meðal landsmanna, en verið hefur á þessu ári sem nú er að líða. Margt verður fólki að deiluefni og eru það þá oftast stjórnmálin sem þar koma við sögu.
En ýmislegt fleira er tínt til og eru trúmálin og kristindómurinn þar ekki undan skilin. Mikið hefur verið um það deilt og þá aðallega í höfuðborginni, hvort börnin megi fara með bænir í skólanum eða ekki, og hvort slíkt bænabann eigi jafnvel að gilda í þeim tilvikum þegar börnin fara í kirkju á vegum skólans. Þá má prestur jú fara með bæn ef hann gætir þess að aðrir taki ekki þátt í bænahaldinu.
Þetta undarlega og heita deilumál í landi þar sem 90% þjóðarinna játar kristna trú, varð Þorsteini Pálssyni fyrrum forsætisráðherra að umfjöllunarefni í grein sem hann skrifaði fyrir nokkru í Fréttablaðið. Í greininni sem hann nefnir vefur þjóðar og kirkju, segir Þorsteinn m.a.: „Kirkjan á vissulega engan einkarétt á kærleikanum og ekki heldur öðrum þeim siðareglum sem boðskapur hennar er reistur á enda hefur hún ekki gert kall til þess. Hér skiptir hitt máli að kirkjan og þjóðin hafa átt samleið um þennan siðaboðskap í þúsund ár. Sýnist mönnum nú vera þeir tímar að nauðsyn beri til að greina þræðina í þeim vef hvorn frá öðrum?”
Síðan spyr Þorsteinn að því hvort það séu rétt viðbrögð að veikja siðaboðskap kirkjunnar og lýkur grein sinni með þessum orðum: „Nú þarf að horfa til þeirra sem trúað er fyrir samfélagslegu valdi og meta framlag þeirra til þess að lyfta þjóðinni í andlegum efnum. Og þá er spurt: Verða þau tímamót á næsta ári að þjóðkirkjuskipulagið verði afnumið?”
Þessi spurning fyrrum forsætisráðherra er til komin vegna þess að í drögum að nýrri stjórnarskrá eru þær greinar sem fjalla um þjóðkirkjuna felldar á brott. Það er nefnilega þannig í landi okkar að oft á tíðum stjórnar hinn háværi minnihluti á kostnað hins þögla meirihluta. Það þurfum við sem tilheyrum þjóðkirkjunni og viljum hafa kristna þjóðkirkju í landi okkar að hafa í huga. Ef við þegjum þá heyrist bara rödd þeirra sem vilja rífa niður og þá verður að lokum rifið niður.
Sjónvarpsmaðurinn kunni Egill Helgason svaraði grein Þorsteins Pálssonar og gagnrýnir það að hann tali um kristna trú út frá því sem hentar samfélaginu. Egill heldur því fram að kenningar kristindómsins séu á það miklu undanhaldi að meira segja prestarnir trúi þeim ekki lengur. Hann bendir á að óravíddir himingeimsins séu svo miklu stærri en menn gerðu sér í hugarlund áður fyrr, eða á þeim tíma sem Biblían varð til og telur það því hæpið að guð geti hafað skapað þetta allt saman. Trúmaðurinn mundi sjálfsagt nota þessar sömu óravíddir himingeimsins til þess að benda á meiri líkur þess að einhver hugsun væri á bakvið sköpunina, heldur en engin og að tilviljun ein réði för.
Og hvað vitum við svo sem um stærð geimsins? Hann stækkar eftir því sem maðurinn getur séð lengra út í geiminn og því erfitt fyrir okkur að gera okkur einhverja mynd af stærð og umfangi alheimsins.
Umræðuþættir Egils Helgasonar eru á sunnudögum í ríkissjónvarpinu og telja margir að þar komi margt gáfulegt fram. Á sunnudagsmorgnum eru einnig pólitískir umræðuþættir í ríkisútvarpinu. Ég er sammál Guðna Ágústssyni fyrrum landbúnaðarráðherra þegar hann sagði að það ætti að gefa fólki frí frá slíkum þáttum á sunnudögum. Nóg væri að karpa um þessi mál alla vikuna, þó að sunnudagarnir væru ekki teknir undir það líka. Sunnudaga ætti fólk að nota sér og sínum til uppbyggingar og gleði í stað þess að hlusta á þras annarra og pólitískar skoðanir þeirra, skoðanir sem ekki eiga nauðsynlegt erindi inn í stofur okkar alla daga vikunnar, helga sem rúmhelga.
Jólahátíðin hvetur okkur einmitt til þess að staldra við og hvíla okkur um stund á hinni hversdagslegu umræðu og þrætum og leiða hugann að örðu. Lyfta huganum ofar dægurþrasinu og huga að því sem æðra er. Þjóð og kirkja eiga langa samleið hér á landi og þær rætur sem tengja þjóð og kirkju saman eru sterkari og dýpri en margir halda. Það kemur ekki síst í ljós þegar á reynir. Þar erum við ekki frábrugðin öðrum Norðurlandaþjóðum sem eiga sér einnig sterka þjóðkirkjuhefð.
Við sáum það vel síðast liðið sumar þegar hin skelfilegu fjöldamorð voru framin í Noregi, hvernig kirkjan varð eðlilegur vettvangur sorgarinnar og huggunarinnar. Þar sem fólk á öllum aldri kom saman til þess að finna styrk og stoð hvert hjá öðru og eiga samfélag í húsi Guðs. Og þar voru mörg ungmenni saman komin og þau fóru með bænir. Við slíkar aðstæður verður þras um það hvort skólabörn í Reykjavík megi fara með bæn, jafnvel inní kirkju svo aumkunarvert að til mikillar skammar er fyrir þá sem þar fara með völd.
En tímarnir breytast vissulega og kirkjan með, þó hún megi ekki sviptast til eftir því sem vindurinn blæs hverju sinni.
Næsta ár verður kosningaár innan kirkjunnar, því bæði þarf að kjósa biskup Íslands er Karl Sigur-björnsson lætur af störfum og nýjan vígslubiskup á Hólum í Hjaltadal þegar Jón Aðalsteinn Baldvinsson lætur af störfum. Þá verður kosið í fyrsta sinn eftir nýjum reglum, sem hefur það í för með sér að mun fleiri kjósa nú en áður og munar þar mestu um að nú mega allir formenn sóknarnefnda kjósa biskup. Má segja að með þessum nýju reglum hafi lýðræðið aukist innan kirkjunnar þegar fleiri koma að því að velja biskup og vígslubiskupa. Þetta er eitt af því sem nýtt ár mun bera í skauti sínu, eitt af þeim verkefnum sem framundan eru til að takast á við.
Ef við lítum okkur nær til ársins sem er að líða þá er Kanadaferð kirkjukórsins það sem fyrst kemur upp í hugann og hversu vel hún gekk í alla staði. Við getum verið þakklát öllum þeim sem við hittum í ferðinni og fyrir þá vináttu, frændsemi og hlýhug sem mætti okkur hvert sem við fórum. Allar slíkar minningar gera okkur gott. Verða eftir þegar árið hverfur og fylgja okkur inn í hið nýja ár þar sem vegferðin heldur áfram.
Við þökkum Guði sem leiðir þennan dag til lykta og hylur hinn ókomna, þökkum fyrir árið sem senn er liðið, felum honum gleði þess og sorgir, allt sem það gaf og tók. Í hendi hans felum við árið liðna og í trausti til handleiðslu hans höldum við inn um dyr hins nýja.
Já, vísa oss vegu þína, Drottinn.
Sr. Gísli Gunnarsson