Rigningasamt næstu daga
Þrjár eða fjórar djúpar lægðir fyrir árstímann er spáð við landið nú í vikunni. Skil þeirrar fyrstu fara yfir í dag og á undan þeim verður strekkings SA-átt. Samkvæmt spá Veðurstofu Íslands er suðaustan 5-13 m/s með morgninum á Ströndum og Norðurlandi vestra og fer að rigna. Heldur hægari og skúrir seint í kvöld.
Á morgun um og upp úr hádegi er von á næstu stroku, á Ströndum og Norðurlandi vestra gengur í sunnan 10-18 á morgun með rigningu. Hiti 9 til 15 stig.
Vegna jarðsigs á Siglufjarðarvegi eru vegfarendur beðnir um að sýna sérstaka aðgát. Meðan frost er að fara úr jörð þarf víða að banna allan akstur á hálendinu til að koma í veg fyrir skemmdir á vegum og náttúru. Þeir sem hyggja á fjallaferðir eru beðnir að kynna sér ástand á viðkomandi leiðum og virða akstursbann þar sem það er. Sjá nánar hér
Veðurhorfur á landinu næstu daga:
Á miðvikudag:
Snýst í vestan og norðvestan 10-18 m/s. Rigning, einkum N- og NV-lands. Hiti 8 til 15 stig, mildast á SA-landi.
Á fimmtudag:
Vestan og norðvestan 8-15 m/s. Rigning N- og NV-lands, skúrir á SV-landi en úrkomulítið SA- og A-lands. Hiti breytist lítið.
Á föstudag, laugardag og sunnudag:
Ákveðin norðanátt með rigningu á norðanverðu landinu, en úrkomulítið syðra. Hiti 7 til 15 stig, hlýjast syðst.