Taka þarf á vanda Hólaskóla

Háskólinn á Hólum glímir við mikinn uppsafnaðan halla og skuldir sem að mati Ríkisendurskoðunar er mikið áhyggjuefni. Fram kemur í skýrslu Ríkisendurskoðunar um Hólaskóla að yfirvöld menntamála og forráðamenn skólans þurfi að taka á þessum vanda. Jafnframt þurfi yfirvöld að ákveða framtíðarstöðu skólans.

Árið 2011 birti Ríkisendurskoðun skýrslu þar sem vakin var at­hygli á erfiðri fjárhagsstöðu Háskólans á Hólum. Skólinn glímdi við mikinn uppsafnaðan halla og háar skuldir, einkum við ríkissjóð. Að mati Ríkisendurskoðunar vakti þetta spurningar um hagkvæmni Hólaskóla sem rekstrareiningar. Almennt miðast fjárveitingar til háskóla við fjölda svokallaðra ársnemenda (ígildi nemenda í fullu námi). Skóli þarf að hafa tiltekinn lágmarksfjölda ársnemenda til að geta staðið fjárhagslega undir þeim faglegu kröfum sem gerðar eru til háskóla. Ríkisendurskoðun benti á að fjöldi nemenda við Hólaskóla hefði aldrei náð þessu lágmarki.

Í nýrri eftirfylgniskýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að fjárhagsstaða Hólaskóla hefur versnað frá árinu 2010. Í árslok 2013 nam uppsafnaður halli skólans 157 milljónum króna sem samsvaraði um 52% af fjárveitingu ársins. Heildarskuldir skólans námu 245 milljónum króna, þar af nam skuld við ríkissjóð 233 milljónum króna. Útlit er fyrir að uppsafnaður halli muni nema 178 milljónum króna í árslok 2014. Að mati Ríkisendurskoðunar er fjárhagsstaða Hólaskóla mikið áhyggjuefni og brýnt að ráðuneytið og forráðamenn skólans taki á vandanum sem fyrst.

Ríkisendurskoðun telur að ráðuneytið og skólinn hafi ekki brugðist sem skyldi við níu af tíu ábendingum skýrslunnar frá 2011. Stofnunin ítrekar nú þessar níu ábendingar.

Sagt var frá þessu á vef Mbl.is í vikunni.

Fleiri fréttir