Torskilin bæjarnöfn - Elvogar í Sæmundarhlíð

Nú er ávalt nefnt og ritað Elvogar, en vafalaust hefir bærinn heitið að fornu Élivogar. Í landamerkjaskrá fyrir Sólheima frá 1378 er nafnið ritað Elevágar (Dipl. fsl. VIII. b., bls. 15), og í Jarðaskrá Teits lögmanns Þorleifssonar 1522 er Jelivogar Dipl. lX. b., bls. 93). Samkvæmt þessu má því fullyrða, að Élivága nafnið sje upprunalegt, og jafnframt bendir nafnið á það, að goðfræðilega sögnin um Élivága hefir vakað fyrir þeim, er nafnfesti bæinn (Snorra-Edda, bls. 10 og víðar).
Elvogar er auðvitað rangt, þótt Jarðabækurnar hafi það svo (Á. M. Jel-). Í framburði hefir i fallið niður, eins og oft verður með þá stafi, sem hafa ljetta áherzlu á öðru atkvæði, eða missa hljóðglegni, t.d. Múkaþverá fyrir Munka-Þverá, Bæsá, fyrir Bægisá o.fl.
Nafnið Élivogar merkir upphaflega haglbarðar öldur (helkuldalamið haf, sbr. Lexicon Poeticum, bls. 116). En nafnið táknar líka ár í Snorra-Eddu (ár og kuldi. Finnur Jónsson: Goðafræði Norðm. of Ísl., bls 13).
Heitið á allvel við bæinn. Landslagið umhverfis er leitótt og lægðótt og hallar öllu að Sæmundará , sem rennur skamt vestan við bæinn. Og sundin og lágadrögin ganga eins og vogar upp í landið, sem smáhækkar og liggur opið og óvarið fyrir öllum næðingum og svalviðrum norðanáttarinnar.
Rannsóknir og leiðréttingar Margeirs Jónssonar
Áður birst í 18. tbl. Feykis 2019
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.