Torskilin bæjarnöfn - Elvogar í Sæmundarhlíð

Loftmynd af túni Elivoga og umhverfi þess 28. október 2000. Horft frá austri til vestur að Sæmundará. Bæjarhóllinn ystur til hægri og sunnan og ofan hans er bæjarstæðið. Mynd: Byggðasaga Skagafjarðar 2. bindi, bls. 487.
Loftmynd af túni Elivoga og umhverfi þess 28. október 2000. Horft frá austri til vestur að Sæmundará. Bæjarhóllinn ystur til hægri og sunnan og ofan hans er bæjarstæðið. Mynd: Byggðasaga Skagafjarðar 2. bindi, bls. 487.

Nú er ávalt nefnt og ritað Elvogar, en vafalaust hefir bærinn heitið að fornu Élivogar. Í landamerkjaskrá fyrir Sólheima frá 1378 er nafnið ritað Elevágar (Dipl. fsl. VIII. b., bls. 15), og í Jarðaskrá Teits lögmanns Þorleifssonar 1522 er Jelivogar Dipl. lX. b., bls. 93).  Samkvæmt þessu má því fullyrða, að Élivága nafnið sje upprunalegt, og jafnframt bendir nafnið á það, að goðfræðilega sögnin um Élivága hefir  vakað fyrir þeim, er nafnfesti bæinn (Snorra-Edda, bls. 10 og víðar).

Elvogar er auðvitað rangt, þótt Jarðabækurnar hafi það svo (Á. M. Jel-). Í framburði hefir i fallið niður, eins og oft verður með þá stafi, sem hafa ljetta áherzlu á öðru atkvæði, eða missa hljóðglegni, t.d. Múkaþverá fyrir Munka-Þverá, Bæsá,  fyrir Bægisá o.fl.

Nafnið Élivogar merkir upphaflega haglbarðar öldur (helkuldalamið haf, sbr. Lexicon Poeticum, bls. 116). En nafnið táknar líka ár í Snorra-Eddu (ár og kuldi. Finnur Jónsson: Goðafræði Norðm. of Ísl., bls 13).

Heitið á allvel við bæinn. Landslagið umhverfis er leitótt og lægðótt og hallar öllu að Sæmundará , sem rennur skamt vestan við bæinn. Og sundin og lágadrögin ganga eins og vogar upp í landið, sem smáhækkar og liggur opið og óvarið fyrir öllum næðingum og svalviðrum norðanáttarinnar.

Rannsóknir og leiðréttingar Margeirs Jónssonar

Áður birst í 18. tbl. Feykis 2019

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir