Uppstigningardagur

Uppstigning Krists eftir Il Garofalo frá árinu 1520
Uppstigning Krists eftir Il Garofalo frá árinu 1520

Í dag er upprisudagur, uppstigudagur eða uppstigningardagur, eins og hann er oftast nefndur, og haldinn hátíðlegur ár hvert á fimmtudegi 40 dögum eftir páska til að minnast himnaför Jesú Krists. Einnig er dagurinn kirkjudagur aldraðra á Íslandi.

Hvað gerðist á uppstigningardaginn?
Þeirri spurningu er svarað á Vísindavefnum:

Uppstigningardagur er einn af helgidögum þjóðkirkjunnar og er jafnframt einn af 15 lögbundnum frídögum almanaksársins. Uppstigningardagur er fimmtudagurinn fjörtíu dögum eftir páska og ber því upp á tímabilinu 30. apríl til 4. júní. Á uppstigningardag er himnafarar Jesú Krists minnst.

Samkvæmt ritningum Nýja testamentisins reis Jesús upp frá dauðum þremur dögum eftir krossfestinguna. Eftir upprisuna birtist hann lærisveinum sínum nokkrum sinnum og sagði þeim að breiða út fagnaðarerindið:

Allt vald er mér gefið á himni og jörðu. Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður, sonar og heilags anda. (Matteusarguðspjall 28: 18-19) Eftir að hafa mælt þessi orð á hann að hafa stigið upp til himna til að sitja við hægri hönd Guðs.

Uppstigningardagur er einn fárra helgidaga kirkjunnar sem ekki var afnuminn við siðaskiptin árið 1550. Elstu heimildir um sérstakan uppstigningardag eru frá síðari hluta 4. aldar, en fyrir þann tíma er talið að haldið hafi verið upp á himnaför Jesú á hvítasunnunni. Eftir því sem útbreiðsla kristninnar varð hins vegar meiri fjölgaði í sífellu sérstökum hátíðisdögum sem tengdust ævi Jesú. Ljóst er að uppstigningardagur hefur verið einn mesti hátíðisdagur íslensku kirkjunnar allt frá árinu 1200. 

Á ýmsum helgimyndum sem lýsa himnaförinni sést hvar fætur Jesú hverfa upp í himinhvelfinguna.

Á ýmsum helgimyndum sem lýsa himnaförinni sést hvar fætur Jesú hverfa upp í himinhvelfinguna

Uppstigningardagur virðist hafa verið nokkuð í hávegum hafður á Norðurlöndunum og eru til ýmsar sagnir um skrúðgöngur sem farnar voru til að líkja eftir seinustu göngu Jesú með lærisveinum sínum til Olíufjallsins. Einnig eru til ýmsar sagnir af leikaraskap við kirkjuathafnir þennan dag sem áttu að líkja eftir himnaförinni. Sums staðar var mynd af Jesú jafnvel látin hverfa upp um op á kirkjuloftinu. Ekki eru þó til neinar frásagnir af slíkum tilburðum úr íslensku kirkjuhaldi.

Ekki er heldur þekkt hér á landi nein sérstök þjóðtrú eða siðir tengdir uppstigningardegi, en í öðrum löndum var himnaför Jesú oft fagnað á gamansaman hátt. Fólk borðaði þá frekar fuglakjöt eða notaði daginn til fuglaveiða. Einnig þekktist að karlar lyftu glösum til að komast í sjöunda himin og líkja þar með eftir uppstigningu Jesú. Nútímamenn hafa einnig oft gaman af helgimyndum sem sýna himnaför Jesú, en mismikið sést þá í fætur Jesú þar sem þeir hverfa upp í himininn.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir