Vilja endurgjalda til samfélagsins og gefa út þakklætisdagbók

Síðustu ár hafa verið fjölskyldu Lilju Gunnlaugsdóttur og Vals Valssonar, í Áshildarholti í Skagafirði, viðburðarík eftir fráfall Völu Mistar, ungrar dóttur þeirra, og ýmislegt sem lagt hefur verið inn í reynslubankann. Lilja segist hafa tekið meðvitaða ákvörðun um að ætla sér að verða þakklát fyrir það sem lífið gefur í stað þess að horfa á það sem miður fer. Segir hún það bestu ákvörðun sem hún hafi tekið í lífinu og hefur það hjálpað henni í gegnum sorgina. Nú vill hún miðla af reynslu sinni og gefur út þakklætisdagbók ætluð börnum.

Lilja segist hafa viljað hjálpa Ásrúnu, eldri dóttur sinni, til að tileinka sér þetta jákvæða hugarfar en hafi vantað verkfæri til þess, eins og hún orðar það. Fyrir hana hafi ekki verið nóg að fá tóma dagbók og skrifa niður hvað hún væri þakklát fyrir, alltaf þurfti mamman að hafa frumkvæðið á því.

„Ég fór því að lesa mér til og reyna að finna efni fyrir hana. Þá kynntist ég hugmyndafræði er kallast vaxandi hugarfar, sem byggir á jákvæðri sálfræði. Þar er tekið heilsteypt á því hvernig við getum þjálfað hugann í að hugsa á ákveðinn máta, hvernig æfing gerir okkur betri, byggir upp sjálfstraust og eykur seiglu,“ segir Lilja sem las og las til þess að afla sér þekkingar á þessum málum. Hún segir gríðarlega mikið efni til og ýmis konar verkefnahefti.

„Gallinn er hins vegar sá að þetta er allt saman á ensku, sem hentaði ekki fyrir níu ára skvísuna mína. Svo ég byrjaði að þýða þessi verkefni fyrir hana. Síðan fór boltinn að rúlla og hugmyndin um daglega dagbók kviknaði. Dagbók sem gæfi henni meira en að nefna hvað hún sé þakklát fyrir. Ég sá fyrir mér bók sem myndi líka sá fræjum að ákveðnum hugsunarhætti en hún væri fljót að fylla út í svo það væri líklegra að hún myndi nenna því.“

Þetta varð til þess að Lilja hellti sér út í meiri heimildavinnu en smám saman kom mynd á þá dagbók sem henni fannst tikka í öll boxin.
„Ég fór að teikna fígúrur og setja dagbókina upp, prenta blaðsíður út og prófa með henni - og ég sá að þetta virkaði. Hún fór að spyrja af fyrra bragði hvort hún mætti fylla út í dagbókina sína. Ég tók eftir að hún fór að taka öðruvísi á ágreiningsmálum sem komu upp á milli hennar og vinkvenna og hún átti auðveldara með að orða tilfinningar sínar og setja mörk. Þá fór ég að hugsa hvort ég ætti að fara með þetta alla leið og hreinlega gefa bókina út þannig að hún gæti hjálpað fleiri börnum.

Ég var komin með þokkalega beinagrind og fór að deila henni með fólki í kringum mig, en ég er einstaklega rík af fólki sem var tilbúið að hjálpa, lesa yfir, gefa ábendingar og prófa bókina. Þar á meðal voru sálfræðingar, félagsráðgjafi, félagsfræðingur, kennarar og þroskaþjálfi sem gáfu góðar ábendingar við yfirlesturinn. Tólf börn á aldrinum sex til tólf ára prufukeyrðu bókina með foreldrum sínum og öll fylltu þau út í dagbókina sjálf og sóttust eftir því af fyrra bragði, eftir að hafa prófað hana í nokkra daga. Ein mamman gantaðist með það að hún væri líka til í bókina bara fyrir sig, enda þarf þakklæti ekki að vera flókið þó bókin hafi í upphafi verið hugsuð fyrir börn,“ segir Lilja en hennar heitasta ósk er að bókin geti hjálpað sem flestum.

Dagbókin mín
Til þess að sem flestir geti eignast bókina ákvað Lilja að gefa hana út sjálf, einkum til að halda kostnaðinum í lágmarki við endursölu á bókinni.
„Þar sem samfélagið hér í Skagafirði stóð þétt við bakið á okkur þegar veikindi Völu Mistar voru sem mest úti í Svíþjóð og svo eftir andlát hennar, höfum við alltaf viljað gefa eitthvað til baka til samfélagsins. Ein af tilraunum mínum til þess er að gefa börnum fædd 2011 sem búa í Skagafirði bókina. Ástæðan fyrir valinu á þessum árgangi er sú að Ásrún er fædd árið 2011 og er innblástur minn í að vinna þessa bók. Ég er búin að hafa samband við sveitarfélagið og skólana og munu krakkarnir fá bókina í gegnum skólana þegar hún kemur úr prentun, sem er vonandi á næstu dögum en það hefur tafist aðeins vegna Covid veirunnar sem geisar um samfélagið um þessar mundir,“ segir Lilja en bókina verður svo hægt að nálgast í verslun svilkonu hennar, Eftirlæti á Sauðárkróki, og í vefverslun eftirlaeti.com.

Bókin sjálf, sem nefnist því einfalda nafni Dagbókin mín, inniheldur 65 daga dagbók sem hægt er að fylla út í daglega og ætluð til að fá lesendur til að hugsa um fyrir hvað þeir eru þakklátir, líðan þeirra og hegðun, auk verkefna til að auka skilning þeirra á tilfinningum og hvernig hægt er að setja sér markmið.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir