Viljayfirlýsing vegna atvinnuuppbyggingar í A-Hún

Í fundargerð sveitarstjórnar Skagastrandar frá 13. ágúst sl. kemur fram að Unnið er að gerð viljayfirlýsingar á milli ríkisstjórnar Íslands, Blönduósbæjar, Sveitarfélagsins Skagastrandar, Húnavatnshrepps og Skagabyggðar.

Viljayfirlýsingin byggir á þingsályktun Alþingis frá 17. október 2013 þar sem ríkisstjórninni er falið að koma á samstilltu átaki stjórnvalda og sveitarfélaga í Austur Húnavatnssýslu um eflingu atvinnulífs og sköpunar nýrra starfa með nýtingu raforku sem framleidd er í Blönduvirkjun.

Í tillögunni frá Alþingi kemur fram að markmiðið með átakinu er að efla samkeppnishæfni svæðisins og undirbúa það fyrir þá uppbyggingu sem fylgir orkunýtingu Blönduvirkjunar og jafnframt vinna að markaðssetningu svæðisins sem iðnaðarkosts, svo sem fyrir gagnaver.

Í greinargerðinni kemur fram að Norðurland vestra hefur gengið í gegnum miklar breytingar er varða atvinnuhætti mörg undanfarin ár. Fækkun starfa í hefðbundnum atvinnugreinum, svo sem sjávarútvegi og landbúnaði, hefur leitt til mikillar byggðaröskunar sem birtist í mikilli fólksfækkun sem vart á sér hliðstæður hér á landi hin síðari ár. Samkvæmt upplýsingum Byggðastofnunar hefur íbúum á svæðinu fækkað um tæplega 1.000 milli áranna 1997 og 2010.

Sveitastjórn Skagastrandar samþykkti aðild að viljayfirlýsingunni og fól oddvita að undirrita hana þegar hún verði fullbúin.

Fleiri fréttir