„Is this normal!?!“

Pétur í baráttunni í leik gegn Þór Þorlákshöfn fyrir jól. MYND: HJALTI ÁRNA
Pétur í baráttunni í leik gegn Þór Þorlákshöfn fyrir jól. MYND: HJALTI ÁRNA

Nú er búið að slaufa körfuboltavertíðinni og væntanlega hefst baráttan á parketinu ekki á ný fyrr en með haustinu – þegar lífið og tilveran verður væntanlega komin í sitt gamla góða form á ný. Feykir hefur þó ekki enn gefist alveg upp á dripplinu og  körfuboltabrasinu þennan veturinn og lagði því nokkrar laufléttar spurningar fyrir Tindastólskappann og landsliðsmanninn Pétur Rúnar Birgisson, sem enn og aftur sannaði mikilvægi sitt í liði Tindastóls í vetur.

Hvernig leggst þriðja sætið í þig og hvernig fannst þér tímabilið hjá Stólunum? „Það í rauninni segir voða lítið að lenda i 3. sæti en eins og flestir vita er deildarkeppnin bara keppni til að raða bestu átta liðunum upp fyrir úrslitakeppni og 3. sæti hefði veitt okkur heimavallarrétt í fyrstu umferð. Þannig að ég held að við getum verið nokkuð sáttir við þá stöðu en auðvitað horfandi til baka eru nokkrir leikir í vetur sem hefðu mátt fara betur.“ 

Áttu Stólarnir möguleika á að taka titilinn í vor? „Já, að sjálfsögðu tel ég það. Úrslitakeppnin er náttúrulega bara nýtt mót og tel ég okkur hafa verið á góðum stað þegar mótið var flautað af. Þrátt fyrir lélegan leik á móti Fjölni vorum við bunir að vinna fimm af siðustu sex leikjum og það var bara tilhlökkun í mönnum að byrja alvöruna og sýna hvað við gætum gert í seríu.“ 

Hvað varstu ánægður með á tímabilinu og hvað var mest svekkjandi? „Það er auðveldara að tala um hvað var svekkjandi. Það voru svona helst þessi tvö töp á móti Fjölni og Val heima þar sem við náðum bara ekki að sýna neinar sparihliðar. Það sem ég var kannski helst ánægður með er hvernig hópurinn tæklaði þessi töp en eftir bæði töpin fórum við í erfiða útileiki gegn Þór Akureyri og Þór Þórlákshöfn og klárum það. Annars er voða erfitt að finna einhverja toppa á tímabili sem fékk ekki einu sinni að klárast.“

Fyrir utan Síkið, hvar er skemmtilegast að spila? „Ég hef alltaf kunnað vel við að spila í Keflavík.“

Hafa körfuboltamenn eitthvað getað æft að undanförnu og hvernig er útlitið með æfingar? „Það er búið að blása allar liðsæfingar af, enda kannski lítið við þær að gera þegar það eru einhverjir sjö mánuðir í næsta leik. Menn geta allavega ennþá farið í íþróttahusið og bæði skotið og lyft. Þau sem eru að koma þangað eru bara dugleg í því að spritta eftir sig lóð og stangir og passa að gera sitt til að varast að ná í þessa veiru.“ 

Hver er aðal stuðboltinn hjá Stólunum? „Heyrðu, það er held ég bara einn maður sem kemur upp og held ég að hann myndi vera svarið hjá öllum í liðinu. Það er Hannes Ingi Másson. Mjög gaman að vera í kringum hann og svo er hann náttúrlega maðurinn sem reddar öllum myndum í rútuferðirnar og er plötusnúður – bæði í lyftingaklefanum og um helgar.“ 

Þú varst valinn í landsliðið á ný á dögunum. Hvað tekur þú með þér úr slíkum verkefnum? „Maður er náttúrlega fyrst og fremst bara gífurlega stoltur að fá tækifæri að spila fyrir landið sitt og tekur maður því aldrei sem gefnum hlut. Svo reynir maður bara að fá ráð frá mönnum þarna og horfir á þá bæði æfa og spila og reynir kannski að koma einhverju yfir í sinn leik.“ 

Hefur ekkert skrautlegt gerst á ferðalögum liðsins þennan vonskuvetur? „Þessi vetur hefur nú verið einhver sá versti sem ég hef upplifað og voru margar ferðirnar skrautlegar. Ég held að ferðin sem situr mest í minninu sé bara síðasta ferð okkar til Þorlákshafnar. Þá var sem sagt búið að snjóa svolítið hérna fyrir norðan og nátturulega ekkert mokað eftir kl. 10 á kvöldin. Bjössi [á Borg, stjórnarmaður og rútustjóri] ákveður að skella sér bara Þverárfjallið og drífa sig heim. Við hefðum líklega verið fljótari að fara Vatnsskarðið vegna þess að Fjallið var bara allt morandi í sköflum. Bjössi lét það svo sem ekkert stoppa sig og keyrði duglega í gegnum þá og menn voru svona farnir að færa sig fram í sætin og fylgjast með framgangi mála. Svo allt í einu lítur Jasmin [Perkovic] við og spyr með sinni einstaklega djúpu rödd: „Is this normal!?!” Við svörum náttúrlega bara: „Nei.“ og þá spyr hann: „Then why does he drive so fast?” Hálfsmeykur kallinn. Menn fóru bara að hlægja og sögðu að Bjössi væri alveg með þetta – sem hann var náttúrulega.“

Feykir þakkar Pétri spjallið.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir