Íþróttir

Stólastúlkur taka á móti liði Keflavíkur í dag

Síðasta umferðin í Bestu deild kvenna fer fram í dag og hefjast allir leikirnir kl. 14:00. Á Sauðárkróksvelli verður mikilvægur leikur í botnbaráttunni þar sem lið Tindastóls tekur á móti botnliði Keflavíkur. Nú þurfa stuðningsmenn Stólastúlkna að skella sér í regngallann og fjölmenna á völlinn og styðja stolt Norðurlands vestra í fótboltanum. Oft var þörf en nú er nauðsyn.
Meira

Lýtingurinn Gunnar Freyr glímir í Englandi

Á heimasíðu Glímusambands Íslands er sagt frá því að flottur hópur glímumanna sé nú á keppnisferðalagi um England þar sem tíu glímumenn- og konur taka þátt í ellefu mótum á tíu dögum. Einn af þeim sem stígur dansinn er skráður í UMSS en það er Gunnar Freyr Þórarinsson og lagði Feykir nokkrar spurningar fyrir hann í gær. Gunnar Freyr er sonur Sigrúnar Helgu Indriðadóttur og Þórarins Guðna Sverrissonar sem búa á Stórhóli í Lýtingsstaðahreppi. „Þar er ég alinn upp en hef í seinni tíð verið heimalningur í Skagafirðinum á sumrin en hef verið í skóla á Akureyri og í Reykjavík síðan haustið 2015,“ segir hann til að byrja með.
Meira

Stefnir í naglbíta í botnbaráttu 2. deildar

Það var mikilvægur leikur í neðri hluta 2. deildarinnar í knattspyrnu á Blönduósi í gær en þá tók Kormákur/Hvöt á móti liði Ægis úr Þorlákshöfn. Fyrir leik voru heimamenn sæti og stigi ofar en lið Ægis en nú þegar langt er liðið á tímabilið er hvert stig dýrmætt í botnbaráttunni. Það voru því miður gestirnir sem gerðu eina mark leiksins þegar um stundarfjórðungur var til leiksloka og skelltu sér upp fyrir Húnvetninga í deildinni og talsverð pressa nú komin á lið Kormáks/Hvatar.
Meira

Skagfirðingamótið haldið í frábæru golfveðri í Borgarnesi

Laugardaginn 10. ágúst var glatt á hjalla á Hamri í Borgarnesi en þá fór fram 26. Skagfirðingamótið í frábæru golfveðri, logn og smá væta. Alls gátu 96 einstaklingar tekið þátt og var kominn biðlisti þegar styttist í mót en enginn forfallaðist og komust því færri að en vildu þetta árið, þar af voru 57 karlmenn og 39 kvenmenn.
Meira

Una Karen í 2. sæti á Íslandsmóti unglinga í höggleik

Um sl. helgi fór fram Íslandsmót unglinga í höggleik og var leikið á Nesvelli hjá Golfklúbbnum Ness á Seltjarnarnesi fyrir keppendur 14 ára og yngri og fyrir keppendur 15-18 ára var keppt á Hlíðavelli hjá Golfklúbbi Mosfellsbæjar. Golfklúbbur Skagafjarðar átti nokkra flotta fulltrúa á báðum völlum en það sem stóð upp úr eftir helgina var að Una Karen Guðmundsdóttir gerði sér lítið fyrir og varð í 2. sæti í sínum flokki, frábær árangur.
Meira

Grikkinn Ioannis bætist í hóp Tindastólsmanna

Það styttist í að körfuboltinn fari að skoppa og nú í dag tilkynnti körfuknattleiksdeild Tindastóls um að samið hefði verið við hinn gríska Ioannis Agravanis um að leika með liðinu á komandi tímabili í Bónus-deildinni. „Agravanis er fjölhæfur framherji sem getur gert sitt lítið að hverju inn á vellinum. Það tók sinn tíma að finna leikmann með hans eiginleika og vonandi mun sú þolinmæði skila sér.“ segir Benedikt Guðmundsson þjálfari Stólanna í tilkynningu frá félaginu.
Meira

Stólarnir komnir í góða stöðu á toppi 4. deildar

Það var stórleikur í 4. deildinni á Króknum í dag þegar lið Tindastóls tók á móti Kópavogspiltum í Ými í raka og þelköldu þokulofti. Liðin hafa skipst á um að tróna á toppi deildarinnar síðustu vikurnar og ljóst að sigur í dag yrði stórt skref fyrir heimamenn í átt að því að tryggja sér keppnisrétt í 3. deild að ári. Það fór svo að stigin þrjú bættust í Stólapottinn eftir 3-1 sigur og áfram heldur frábært gengi Tindastóls í deildinni.
Meira

Húnvetningar nældu í gott stig í Garðabænum

Lið Húnvetninga heldur áfram að pluma sig býsna vel í 2. deildinni en í dag heimsóttu þeir Garðbæinga í liði KFG. Litlu munaði á liðunum fyrir leik, lið Kormáks/Hvatar stóð þá tveimur stigum betur, og sá munur breyttist ekki í dag þegar liðin gerðu sitt hvort markið. Stigið dugði hins vegar til að færa lið Húnvetninga upp um sæti, eru nú í áttunda sæti deildarinnar með 19 stig þegar fimm umferðir eru eftir.
Meira

Mikilvægur leikur á Króknum og strákarnir tilbúnir og spenntir

„Við erum tilbúnir og spenntir; við munum þó nálgast þennan leik á sama hátt og við höfum hvern annan leik,“ segir Dominic Furness sem þjálfar karlalið Tindastóls í fótboltanum þegar Feykir hafi samband. Það er nefnilega stórleikur á morgun, laugardag, því þá mætir lið Ýmis á Krókinn en þeir Kópavogspiltar hafa trónað á toppi 4. deildarinnar lengst af sumars. Nú eru Stólarnir á toppnum en hafa leikið einum leik meira en lið Ýmis.
Meira

Mættu ekki klárar til leiks á Heimavöll hamingjunnar

„Við mætum bara ekki klárar til leiks, ætli það hafi ekki gert okkur erfitt fyrir að koma til baka þegar við lendum undir 2-0 strax í byrjun leiks,“ sagði Bryndís Rut Haraldsdóttir, fyrirliði Tindastóls í Bestu deild kvenna, þegar Feykir spurði hana út í leikinn gegn Víkingum í gærkvöldi. „Ég get ekki annað en verið hreinskilin og segja að varnarleikurinn var virkilega slæmur og það er eitthvað sem við veðrðum að laga.“
Meira