Fiskibollur með bleikri sósu og eplakaka

Matgæðingurinn Þorgerður Eva með börnum sínum, Sindra Snæ og Sigrúnu Þóru.
Matgæðingurinn Þorgerður Eva með börnum sínum, Sindra Snæ og Sigrúnu Þóru.

Þorgerður Eva Þórhallsdóttir á Sauðárkróki var matgæðingur í 20. tbl. ársins 2018.  „Ég hef alltaf haft gaman af að elda og á erfitt með að fylgja uppskrift en hér koma tvær góðar,“ sagði Þorgerður sem bauð upp á fiskibollur með bleikri sósu og íslenskum jurtum og eplaköku með vanillusósu og ís á eftir.

AÐALRÉTTUR
Fiskibollurnar hennar Halldóru með bleikri sósu og íslenskum jurtum

600 g ýsa eða þorskur
1-2 laukar
2 egg
1 dl hveiti
1 tsk. salt og pipar
2 tsk. lyftiduft
2 msk. kartöflumjöl
2  msk. fiskikrydd
1 msk. aromat
(engin mjólk)

Aðferð:
Fiskurinn er settur í matvinnsluvélina ásamt eggjum, lauk, kartöflumjöli, hveiti og kryddum. Þetta er maukað saman þangað til er komin falleg áferð á deigið. Bollur eru mótaðar með matskeið og steiktar á pönnu upp úr olíu og smjöri. Þegar kominn er fallegur litur set ég þær í eldfast mót á um það bil 180 gráður inn í ofn á meðan ég bý til heita tómatsósu.

Heit tómatsósa:
150 g smjörlíki
2-3 msk. púðursykur
3-4 msk. tómatsósa
3 dl rjómi

Aðferð:
Smjörlíki og púðursykur brætt í potti, tómatsósu bætt við og látið krauma smá og rjómanum hellt út í. Borið fram með fiskibollum, hrísgrjónum og íslenskum jurtum; Ólafssúrum, hundasúrum, maríustakki. 

EFTIRRÉTTUR
Eplakaka með vanillusósu og ís 

Mylsnan:
300 g hveiti
175 g púðursykur
200 g smjör (mjúkt og skorið í litla bita)

Fylling:
3 epli
50 g púðursykur
1 msk. hveiti
kanill eftir smekk
lúka af möndluflögum dreift yfir kökuna áður en hún fer í ofninn

Aðferð:
Stillið ofninn á 180 gráður. Blandið saman sykri og hveiti og blandið síðan smjörbitunum smátt og smátt saman við með höndunum.  Flysjið eplin, kjarnhreinsið, skerið í litla bita og setjið í skál. Blandið púðursykri, hveiti og kanil saman við og hrærið. Setjið eplafyllinguna í 24 cm ofnfast form og dreifið mylsnunni yfir. Bakið í 45-50 mínútur.

Vanillusósa:
½ vanillustöng
3 dl mjólk
1½ dl rjómi
1 dl sykur
½ msk. kartöflumjöl með 1 msk mjólk
1 eggjarauða

Aðferð:
Skerið vanillustöngina í tvennt og skrapið vanillukornin úr henni.  Hitið mjólkina, rjómann, vanilluna og sykurinn varlega á pönnu og hrærið í á meðan. Lækkið hitann og leyfið þessu að malla á meðan mjólkin er að taka í sig vanillubragðið.  Blandið kartöflumjölinu saman við 1 msk. af mjólk, bætið út í og hitið blönduna upp að suðu. Takið af hitanum um leið og suðan fer að koma upp. Bætið eggjarauðunni saman við og pískið vel saman þangað til sósan fer að kólna.
Berið fram með vanillusósu og ís.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir