Haustlegur matur

Hjörtu eru ódýr og góður matur.
Hjörtu eru ódýr og góður matur.

Þáttur þessi birtist áður í 35. tbl. Feykis 2017:

Nú stendur sláturtíðin sem hæst og þá er tilvalið að verða sér úti um ódýrt hráefni sem hægt er að matreiða dýrindis rétti úr. Í hugum margra eru lifur og hjörtu ekki beint kræsilegur matur en tilfellið er að úr þeim má útbúa hina fjölbreytilegustu rétti eins og uppskriftirnar sem hér fylgja bera með sér.

RÉTTUR 1

Lambahjörtu í brúnni sósu

1 laukur
1 kg hjörtu
1 msk. kjötkraftur
1 msk. púrtvín
1 tsk. blóðberg eða timjan
1 tsk. pipar
1 tsk. paprikuduft
2 msk. maizena-mjöl
750 ml vatn
½ dl rjómi
½ msk. matarolía 

Aðferð:
Steikið laukinn upp úr olíunni, skerið hjörtun í 6– 8 bita hvert og snyrtið þau. Steikið hjörtun með lauknum og látið brúnast. Hellið púrtvíni og vatni yfir. Bætið kryddinu í og látið suðuna koma upp. Lækkið hitann og látið malla í að minnsta kosti 40 mínútur. Látið suðuna koma upp aftur, hrærið maizenamjölið út í einum dl af köldu vatni og hrærið saman við sósuna í pottinum. Smakkið til með salti og pipar og öðru kryddi ef þið viljið. Berið fram með meðlæti að eigin vali, t.d. kartöflumús, grænmeti og rabbarbarasultu. 

RÉTTUR 2 
Lifur frá Malasíu

500 g lifur
2 laukar, skornir í sneiðar
olía til steikingar
1 tsk. mulinn kóríander
1-2 hvítlauksrif, smátt söxuð (má bæta við ef óskað er)
salt
½ tsk. chilli pipar
¼ tsk. turmerik
1 msk. soja sósa
1 msk. mjúkt hnetusmjör
1 dós kókosmjólk (285 ml) 

Aðferð:
Steikið lifrina brúna á vel heitri pönnu. Takið hana af og steikið laukinn þar til hann er orðinn ljósbrúnn. Takið helminginn af lauknum frá og notið til skrauts. Bætið þurra kryddinu, nema salti, út í laukinn og steikið við vægan hita í eina mínútu. Bætið þá lifrinni við og síðan sojasósu, hnetusmjöri og salti. Hellið síðan kókosmjólkinni út í og látið sjóða í 20-30 mínútur. Skreytið með lauknum sem tekinn var frá. Gott er að bera réttinn fram með hrísgrjónum sem soðin hafa verið með saffran eða turmerik. 

RÉTTUR 3
Súrsæt lifur 

500 g lifur í þunnum sneiðum eða strimlum
hveiti til að velta lifrinni upp úr
2 msk. matarolía og smá smjör til steikingar
salt og pipar
sítrónusafi
1½ rauð paprika
2 msk. hrásykur
1 stór laukur, skorinn í báta
2 cm engiferrót, skorin í fínlega julienne- strimla
1 hakkaður hvítlauksgeiri
2 msk. tómatþykkni
1 glas ananassafi
2 msk. edik
2 msk. sojasósa
1 glas kjúklingasoð (teningur)
maizenamjöl til þykkingar, leyst upp í vatni. 

Aðferð:
Mýkið lauk og papriku á pönnu í olíu og smjöri. Bætið glasi af ananassafa út á og því næst öllu nema maizenamjöli og kjöti. Látið sósuna krauma í 5 mínútur og þykkið eftir smekk með maizenamjöli. 
Snöggsteikið hveitiborna lifrina á annarri pönnu upp úr ögn af smjöri og olíu. Færið lifrina upp á fat og hellið sósunni yfir. 
Berið fram með polenta (sjá leiðbeiningar á pakka), soðnum hrísgrjónum eða kartöflustöppu. 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir