Kjúklingaréttur meistarans og freistandi ísterta

Matgæðingarnir Halldór og Lena Marie. Aðsend mynd.
Matgæðingarnir Halldór og Lena Marie. Aðsend mynd.

Það voru þau Halldór Sigfússon og Lena Marie Pettersson á Hvammstanga sem gáfu lesendum Feykis sýnishorn af uppáhaldsuppskriftunum í 30. tbl. Feykis árið 2017. Halldór er þjónustustjóri í Landsbankanum á Hvammstanga en Lena var að skipta um starfsvettvang eftir 12 ára starf í Leikskólanum Ásgarði og var að hefja störf í Þvottahúsinu Perlunni. „Við reynum að hafa verkaskiptingu heimilisins skýra þannig að hver geri það sem hann er góður í og því sér Lena að mestu um eldamennskuna meðan Halldór tekur hraustlega til matarins,“ sögðu þau Halldór og Lena. „Kjúklingarétturinn er einfaldur og fljótlegur og afskaplega vinsæll á heimilinu. Hvort við notum hot eða medium salsasósuna fer eftir hvort miðju unglingurinn er í mat eða ekki, hans bragðlaukar eru ekki hannaðir fyrir hot sósur. Kolbrún, samstarfskona Halldórs, kom okkur á bragðið með ístertuna en hún er algjör bomba og reynir á kransæðarnar.“ 

AÐALRÉTTUR
Kjúklingaréttur meistarans

5 kjúklingabringur
3 tortilla kökur
Tex mex chunky salsa 350 g (medium eða hot)
400 g rjómaostur
pizzaostur (½ -1 poki eftir smekk) 

Aðferð:
Byrjið á að léttkrydda kjúklingabringurnar með Kjöt og grill kryddi eða Season all. Skerið svo bringurnar í litla bita, steikið þær á pönnu og setjið í eldfast mót þegar þær eru tilbúnar. Bræðið saman salsasósuna og rjómaostinn í potti og látið malla í smástund, þegar það er tilbúið er því hellt yfir kjúklinginn. Því næst eru tortilla kökurnar rifnar niður og settar yfir kjúklinginn og pizzaosti dreift yfir allt saman. Svo er þetta sett inn í ofn við 180°C og eldað þangað til osturinn er orðinn brúnleitur (u.þ.b. 15 mínútur). Það er nauðsynlegt að hafa ferskt salat með þessu og ekki skemmir að hafa einnig hvítlauksbrauð. 

EFTIRRÉTTUR
Daim ísterta (Kolluterta)

Botn:
3 eggjahvítur
2 dl sykur

Aðferð:
Stífþeytt saman. Bakað við 110-130°C í 75 mín, fínt er að kæla botninn í ofninum. 

Dajm ís:
3 eggjarauður
1 dl sykur
4 dl rjómi
slatti af muldu Daimi eða Daim kúlum 

Aðferð:
Þeytið eggjarauðurnar með sykrinum, rjóminn er þeyttur sér. Þessu tvennu er svo blandað varlega saman með sleif og Daimið sett út í. Sett yfir vel kældan botninn og fryst. Tekið út tímanlega en þó ekki of snemma því kakan er ekki síðri frosin.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir