Kotasælubollur og karamellukaka

Matgæðingarnir Kristín Guðbjörg og Hannes Guðmundur ásamt börnum sínum.
Matgæðingarnir Kristín Guðbjörg og Hannes Guðmundur ásamt börnum sínum.

Matgæðingar vikunnar í 16. tbl. Feykis 2018 voru þau Kristín Guðbjörg Jónsdóttir og Hannes Guðmundur Hilmarsson sem búa á Kolbeinsá 1 sem stendur við norðanverðan Hrútafjörð, Strandasýslumegin. Þau hjón eiga fjögur börn og búa með 680 fjár ásamt því að vera með vélaútgerð. Ennfremur reka þau ferðaþjónustu á næstu jörð, Borgum, þar sem þau leigja út einbýlishús árið um kring. Þau gefa okkur uppskriftir að kotasælubollum sem Guðbjörg segir að séu ótrúlega góðar með súpum eða þá bara með kaffinu og einnig af köku með karamellukremi sem er bæði góð sem kaffimeðlæti og sem eftirréttur. 

UPPSKRIFT 1
Kotasælubollur

650 g hveiti
½ msk. sykur (eða hunang)
3 msk. sesamfræ, hörfræ
1 tsk. salt
1 bréf þurrger
30 gr smjör
5 dl mjólk
100 g kotasæla (má vera meira)

Aðferð:
Mjólk hituð, ger sett út í ásamt sykrinum og látið freyða. Öllu hinu bætt út í og hnoðað. Látið lyfta sér. Mótaðar bollur og settar inn í  200° heitan ofn uns þær hafa brúnast. 

UPPSKRIFT 2
Góð kaka með kaffinu eða sem eftirréttur

Botn:
3 egg
3 dl sykur
4 msk. smjör
100 g suðusúkkulaði
1 tsk. salt
1 tsk. vanilludropar
1½ dl hveiti

Aðferð:
Egg og sykur hrært vel saman. Smjör og súkkulaði sett í pott og brætt, kælt og bætt saman við eggjablönduna. Svo er afganginum af hráefninu bætt út í. Sett í form og bakað við 180° í 17 mínútur.

Karamella:
4 msk. smjör
1 dl púðursykur
3 msk. rjómi

Aðferð:
Sett í pott og soðið saman í karamellu (ekki soðið of mikið). Kakan tekin úr ofninum, karamellan sett út á kökuna sem er sett aftur inn í ofn í 17 mínútur. 
Stráið rifnu súkkulaði ofan á kökuna þegar hún er bökuð og svo er hún borin fram með þeyttum rjóma.  (Einnig er snilld að eiga þessa köku í frystinum þegar gesti ber að garði).

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir