Kryddlegin folaldasteik og ljós skúffukaka

Matgæðingarnir Sigurður Leó og Kristín Guðbjörg ásamt dótturinni Ölmu Karen.
Matgæðingarnir Sigurður Leó og Kristín Guðbjörg ásamt dótturinni Ölmu Karen.

Matgæðingar Feykis í 17. tbl. FEykis árið 2018 voru Kristín Guðbjörg Snæland og Sigurður Leó Snæland Ásgrímsson á Sauðárkróki. Þau deildu með lesendum uppskrift að kryddleginni folaldasteik og skúffuköku.

AÐALRÉTTUR
Kryddlegin folaldasteik (fyrir 4) 

800 - 1000 g folaldakjöt (t.d. lund, innra æri o.fl.)
4 bökunarkartöflur
½ haus blómkál
½ búnt brokkolí
3 gulrætur
½ rauð paprika
½ gul paprika
6 sveppir
1 laukur (eða rauðlaukur)
1 box sveppasmurostur
¼ lítri rjómi
¼ tsk nautakjötskraftur 

Kryddlögur:
2 msk. Víkingakryddolía frá Pottagöldrum
2 msk. olía
1 tsk. paprikukrydd
1 tsk. hvítlaukssalt
1 tsk. bláberjasalt eða annað salt 

Aðferð:
Skerið folaldakjötið í u.þ.b. 2 cm þykkar sneiðar og setjið þær í skál. Hellið öllu hráefni í kryddleginum út á og hrærið vel saman. Veltið kjötinu fram og til baka svo öruggt sé að allt blandist vel saman og þeki alla kjötbitana. Látið standa í allavega 2-3 klukkutíma við stofuhita. Á meðan er gott að skera allt grænmetið í bita og setja í eldfast mót sem hefur verið smurt með smjöri eða olíu. Gott er að hella svolítilli olíu yfir og salta örlítið og jafnvel krydd eftir smekk. Hrærið saman og bakið í ofni við 180°C í um hálftíma. Fylgist með og hrærið að minnsta kosti einu sinni.
Bökunarkartöflur eru settar í álpappír og grillaðar við nokkuð háan hita í um hálftíma. Þær eru tilbúnar þegar þær eru mjúkar. Rjómaosturinn, rjóminn og kjötkrafturinn fara í sósupott og malla saman á meðan kjötið er steikt. Steikið kjötið á pönnu í 3-4 mínútur á hvorri hlið eða skellið bitunum á grillið í svipaðan tíma. Steikingartíminn fer eftir því hversu mikið þið viljið hafa kjötið eldað. Borið fram með kryddsmjöri fyrir kartöflurnar og fersku salati. 

KAKA
Ljós ofnskúffukaka 

4½ bolli hveiti
3 bollar sykur
250 g smjörlíki
2 bollar mjólk
3 egg
6 tsk. lyftiduft
1½ tsk. salt
3 tsk. vanilludropar 

Aðferð:
Hrærið smjörlíki og sykur og bætið eggjunum út í einu og einu. Skafið niður á milli. Bætið næst við hveiti og mjólk og svo afganginum. Hellið í ofnskúffu sem hefur verið smurð með smjörliki eða olíu og bakið við 175°C þar til brúnir kökunnar losna frá forminu. Stingið þá prjóni í miðjuna og takið úr ofninum ef ekkert deig kemur með. Kakan er best ef hún er ekki bökuð of mikið. 

Krem:
200 g smjör
⅔ af pakka af flórsykri
1 dl kakó
3 msk. mjólk
1 tsk. vanilludropar

Aðferð:
Hrærið öllu saman og bætið við kakó eða mjólk eftir smekk þar til kremið er þægilega mjúkt og þunnt til að smyrja á skúffukökuna.

Verði ykkur að góðu.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir