Súrkálsréttur og fleira góðgæti

Matgæðingarnir Ingi og Elsche ásamt börnum sínum. Aðsend mynd.
Matgæðingarnir Ingi og Elsche ásamt börnum sínum. Aðsend mynd.

Ingi Hjörtur Bjarnason og Elsche Oda Apel vour matgæðingar Feykis í 25. tölublaði sumarið 2018. Þau búa á Neðri-Svertingsstöðum í Húnaþingi vestra með kýr og naut ásamt kvígum og kálfum, kindum, hestum, hund og ketti. Einnig eiga þau börnin Hönnu Báru, Bjarna Ole, Ingunni Elsu og Ingu Lenu. Elsche vinnur einnig sem sjúkraþjálfari á Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Hvammstanga.

„Súrkálsrétturinn með lambalærisafgöngum er sígildur daginn eftir lambalærið en í honum eru allir afgangar frá deginum áður nýttir. Apríkósusultan er sígild á brauð og til að sæta eftirrétti og líka möndlu- og gráfíkjukremið en það bragðast allra best með heimabökuðu brauði eða súrdeigsbrauði,“ sögðu matgæðingarnir Ingi og Elsche.

AÐALRÉTTUR
Súrkálsréttur með lambalærisafgöngum

Ríflega 1 kg af forsoðnum kartöflum
afgangar af lambalæri
500 g súrkál
afgangar af rótargrænmeti
1 lítil dós af niðursoðnum ananas
afgangar af lærisfeiti
svolítið salt, pipar og kúmen

Aðferð:
Smyrjið stórt eldfast mót með smjöri og sneiðið næst forsoðnar kartöflur yfir botninn. Setjið bita af lambalæri yfir kartöflurnar og skellið súrkálinu yfir það. Setjið forsoðið rótargrænmeti yfir súrkálið og setjið ananasbita efst (hellið safanum í réttinn), krydd og feiti (sem hellt hefur verið úr forminu sem lærið var steikt í). Setjið réttinn inn í ofninn og bakið í u.þ.b. klst. við 180°C. Njótið réttarins, ef til vill með svolitlu af sýrðum rjóma eða grískri jógúrt.

RÉTTUR 2
Apríkósusulta með döðlum

100 g apríkósur (dökkar)
50 g þurrkaðar döðlur
ögn af engiferdufti
ögn af sjávarsalti

Aðferð:
Leggið apríkósurnar og döðlurnar í bleyti yfir nótt í svolitlu af vatni eða eplasafa. Bætið afganginum af innihaldsefnunum við og maukið saman í matvinnsluvél. Ef massinn er of þykkur má blanda við svolitlu af eplasafa eða vatni. Geymist í kæli í lokaðri glerkrukku í 1-2 vikur.

RÉTTUR 3
Möndlu- og gráfíkjukrem

250 g þurrkaðar gráfíkjur
250 g dökkt möndlusmjör (frá Rapunzel)
engiferduft á hnífsoddi
ögn af sjávarsalti
örlítið af sítrónusafa
1 tsk kakóduft

Aðferð:
Leggið gráfíkjurnar í bleyti yfir nótt. Hellið um ⅓ af bleytivatninu yfir í annað ílát næsta dag og geymið. Blandið hinum innihaldsefnunum saman við og maukið saman í matvinnsluvél. Bætið afganginum af bleytivatninu út í ef kremið er of þykkt. Geymist í lokaðri krukku um 1-2 vikur í kæli.


RÉTTUR 4
Skinkuhorn  (partý snakk)

250 g spelt eða heilhveiti
250 g skyr
250 g smjör

Fylling:
Skinka (hrá eða soðin) eða reyktur lax eða bara ostur.

Aðferð:
Blandið öllu saman  og nuddið vel, má bæta spelti eða hveiti við ef deigið er of þunnt. Setjið deigið í ísskáp yfir nótt. Takið  litlar kúlur af deiginu og fletjið út í hring. Skerið í 8-16 bita.

Skerið fyllinguna í bita, setið svolítið af henni á hverja sneið og rúllið upp frá breiða endanum. Sett á plötu með bökunarpappír á og bakað í 10-15 mínútur við 180°C.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir