Ostasalat og kjúklingur með pestó og paprikusnakki

Freyja og Helgi með börnin. MYND AÐSEND
Freyja og Helgi með börnin. MYND AÐSEND

Matgæðingar í tbl. 30 í fyrra voru Freyja Rut Emilsdóttir og Helgi Jóhannesson en þau búa á Króknum ásamt börnum sínum; Emmu Katrínu 16 ára, Júlíu Marín alveg að verða 13 ára og tvíburunum Aroni Elmari og Jóel Darra sem eru 7 ára. Sú elsta, Laufey Helga, býr í Reykjavík.

Freyja er uppalin á Króknum en eftir um 20 ára búsetu í borginni flutti fjölskyldan norður árið 2018 og kom sér fyrir í Ártúninu. Freyja starfar sem framkvæmdastjóri 1238 og Helgi er flugmaður hjá Icelandair.

RÉTTUR1
Ostasalatið hans Helga
    1 stk. hvítlauksostur
    1 stk. Mexicoostur
    græn vínber
    blaðlaukur
    1 dós sýrður rjómi

Aðferð: Ostarnir skornir í litla bita, vínberin skorin í tvennt og blaðlaukur saxaður frekar smátt, sett í eina skál og sýrðum rjóma blandað við. Þetta er mjög gott með kexi eða góðu súrdeigsbrauði, tilvalið snarl og alveg ómissandi í brönsinn.

FÖSTUDAGSKJÚKLINGUR FREYJU
Kjúklingur með pestó og paprikusnakki

    kjúklingabringur
    rautt pesto
    rifinn ostur
    paprikusnakk

Aðferð: Þurrkið kjúklinginn með eldhús bréfi, penslið með olíu, salt og pipar. Veltið kjúklingnum upp úr rauðu pesto og svo snakki sem búið er að mylja niður. Setjið í eldfast mót, stráið osti og aðeins af snakkinu yfir. Bakið í ofni við 180°C í 20 mínútur eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Gott að bera fram með kaldri hvítlaukssósu, smjörsteiktum kartöflum og fersku salati ásamt afganginum af paprikusnakkinu.

Verði ykkur að góðu!

Freyja og Helgi skoruðu á Kristjönu, sem gerir allar fallegu kökurnar í Gránu og er algjör snillingur í eldhúsinu.  

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir